Enski boltinn

Herrera: Alveg eins og við höfum tapað þessum tveimur leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ander Herrera, miðjumaður Manchester United, viðurkennir að tilfinningin eftir síðustu tvo heimaleiki Manchester United liðsins í ensku úrvalsdeildinni sé eins og eftir tapeik þótt að liðið hafi fengið stig í þeim báðum.

United-liðið gerði markalaust jafntefli á móti Burnley um helgina og hafði gert 1-1 jafntefli við Stoke City í heimaleiknum á undan. Í báðum leikjum voru United-menn með mikla yfirburði út á velli sem og í fjölda skota á mark.

Jafnteflið um helgina þýðir að Manchester United liðið er í áttunda sæti en það hefur ekki hjálpað til að í síðustu tveimur útileikjum hefur liðið aðeins náð í eitt stig af sex mögulegum og ekki náð að skora mark. Þrjú stig af tólf mögulegum í fjórum síðustu deildarleikjum er langt frá því að vera ásættanlegt.

Í leiknum á móti nýliðum Burnley var Manchester United með boltann 72 prósent af leiknum og náði alls 37 skotum. Hvert dauðafærið fór hinsvegar forgörðum og liðið náði ekki að landa sigri í síðasta leik sínum í október. United náði því ekki að vinna deildarleik í mánuðinum.

„Mér líður alveg eins og við höfum tapað þessum tveimur leikjum. Við stjórnuðum leiknum í 90 mínútum um helgina og það var ótrúlegt að okkur tókst ekki að skora mark,“ sagði Ander Herrera í viðtali við enska fjölmiðla.

„Heppnin er ekki með okkur þessa dagana en við verðum bara að halda áfram að spila eins og við gerðum í þessum leik og í leiknum á móti Stoke. Vonandi uppskerum við einhvern tímann sanngjörn úrslit, 5-0 eða 6-0 hefði verið sanngjörn úrslit á móti Burnley,“ sagði Herrera. Það er hægt að sjá myndband frá leiknum í spilaranum hér fyrir ofan.

Ander Herrera fékk ekki að klára leikinn á móti Burnley því hann var rekinn af velli með tvö gul spjöld.

„Ég beygði hnén í fyrra brotinu því ég vildi ekki sparka í mótherjann. Í seinna brotinu þá rann ég. Ég vil samt ekki kvarta meira því ég vil ekki fá lengra bann,“ sagði Herrera.

„Það eina sem ég get sagt er að ég ætlaði ekki að brjóta af mér. Ég er ekki ofbeldisfullur leikmaður. Ég rann bara,“ sagði Herrera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×