Fótbolti

Ferli Steven Gerrard lauk líklega með tapi í vítaspyrnukeppni | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Steven Gerrard skoraði úr sinni spyrnu.
Steven Gerrard skoraði úr sinni spyrnu. vísir/getty
Steven Gerrard og félagar í bandaríska MLS-liðinu Los Angeles Galaxy féllu úr leik í úrslitakeppninni í gær þegar liðið tapaði í vítaspyrnukeppni fyrir Colorado Rapids.

Gerrard kom inn á þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma en hann tók fyrsta víti Galaxy-liðsins og skoraði. Það var eina vítið sem Galaxy skoraði úr því Giovani dos Santos skaut yfir markið og Tim Howard, fyrrverandi markvörður Everton, varði svo tvær aðrar.

Enski landsliðsmaðurinn fyrrverandi Steven Gerrard er búinn að gefa það út að hann mun ekki endurnýja samninginn sinn við Los Angeles-liðið og er glæstum ferli hans líklega lokið. Enskir fjölmiðlar greina frá því að þessi 36 ára gamli miðjumaður muni að öllum líkindum leggja skóna á hilluna.

Það er auðvitað kaldhæðni örlaganna að enskur landsliðsmaður klári ferilinn í vítaspyrnukeppni og tapi því nokkrar erfiðar næturnar hefur hann átt eins og aðrir Englendingar vegna tapleikja enska landsliðsins í vítaspyrnukeppnum í gegnum tíðina.

Ashley Cole, annar fyrrverandi enskur landsliðsmaður, tók eina spyrnu Galaxy í gær en lét Tim Howard verja frá sér. Howard er kominn aftur í bandaríska landsliðið og er búið að gefa út að hann er aftur orðinn aðalmarkvörður þess. Hann tók sér tveggja ára frí frá landsliðinu eftir HM 2014.

Allt það helsta úr leiknum og vítaspyrnukeppnina má sjá með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×