Skoðun

Það þarf aðgerðir stjórnvalda til að rjúfa vítahring fátæktar meðal barna

Erla Björg Sigurðardóttir skrifar
Rannsóknir sýna að á Íslandi er ójafnrétti meðal barna hvað varðar jöfn tækifæri til að búa við mannsæmandi kjör s.s. fæði, klæði, húsnæði, velferðarþjónustu, tómstundir, íþróttir, félagslíf og listnám. Ójafnréttið skapast af bágum fjárhag foreldra þessa barna sem hefur áhrif á velferð allra í fjölskyldinni. Þeir sem búa við fátækt í æsku eru í áhættu fyrir að verða fátækir á fullorðinsárum. Í mestri áhættu eru börn einstæðra foreldra, foreldra með skertra starfsgetu og/eða litla menntun þ.e. hafa litla möguleika til að auka tekjur sínar með atvinnuþátttöku.

Í skýrslu UNICEF 2016 um greiningu á fátækt/skorti meðal barna, er efnislegur skortur flokkaður í sjö svið: næring, klæðnaður, menntun, upplýsingar, húsnæði, afþreying og félagslíf. Í skýrslunni kemur fram að heildarskortur meðal barna á Íslandi jókst á milli áranna 2009 og 2014 eða frá 4,0% í 9,1%. Hlutfallslega er aukning mest varðandi skort á sviði hússnæðis, afþreyingu og félagslífs. Dýpt skorts var mældur með fjölda þátta sem börn skorti og var talið að börn búi við skort ef þau skorti tvennt eða fleira af sjö þáttum. Á sama hátt er talið að börn búi við verulegan skort ef þau skorti þrennt eða fleira af hinum sjö þáttum. Skortur jókst meðal barna úr fjórum þáttum árið 2009 í sjö þætti árið 2014.

Samkvæmt skýrslu UNICEF líða 2,4% barna á Íslandi verulegan skort. Í nýrri skýrslu Hagstofunnar sem gerð var að frumkvæði velferðarvaktarinnar er gert grein fyrir niðurstöðum greiningar á hópi landsmanna sem býr við sárafátækt. Niðurstöður sýna að þeir sem ekki hafa atvinnu eru líklegri til að búa við sárafátækt en þeir sem eru í vinnu. Sárafátækt er tíðari meðal leigjenda en hússnæðiseigenda, einstæðra foreldra og einstaklinga með bága heilsu. Árið 2012 lét velferðarsvið Reykjavíkurborgar Rannsóknastofnun í barna og fjölskylduvernd (RBF) gera rannsókn á félagslegum aðstæðum reykvískra barnafjölskyldna eftir atvinnustöðu og kom fram að hlutfall einstæðra foreldra var hærra meðal þeirra sem ekki voru í vinnu en meðal þeirra sem voru í vinnu og lang hæst meðal notenda fjárhagsaðstoðar velferðarsviðs.

Ef gengið er út frá skort greiningu UNICEF, nýrri greiningu Hagstofunnar á sárafátækt og ofangreindri rannsókna frá 2012 er margt sem rennur stoðum undir að börn foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð til framfærslu séu í áhættu með að líða skort eða sárafátækt. Stór hluti notenda fjárhagsaðstoðar til framfærslu er með skerta starfsgetu, árið 2015 var tæplega 40% þeirra óvinnufær. Sama ár var að meðaltali fjöldi barnafólks með fjárhagsaðstoð til framfærslu 346 og fjöldi barna þeirra að meðaltali 536. Þá var fjöldi barnafólks að meðaltali með fjárhagsaðstoð til framfærslu í 6 mánuði eða lengur 189 og fjöldi barna þeirra að meðaltali 298.

Í þessu samhengi er vert að viðra að samkvæmt kenningum um auð, skapast menningarlegur auður að mestu innan fjölskyldunnar í félagsmótuninni og hefur fjármagn m.a. áhrif á þann menningarlega auð sem börnum hlotnast eða hlotnast ekki. Þar er átt við m.a. að efnisleg og táknbundin gæði geta veitt aðgang að betri stöðu í samfélaginu sem eru tilkomin vegna menningar og félagsauðs. Margt í menningarlegum auði hefur þá sérstöðu meðal auðmagns að það er líklegt að renna saman við og verða að lífshætti fólks og er þannig hluti af hinum félagslega arfi. Kenning um félagslega arfleifð fjallar um það hvernig lífshættir, fjölskylduaðstæður og önnur mótun í nær umhverfi barns fylgir því ekki aðeins áfram í eigin fjölskyldu heldur flyst áfram til næstu kynslóðar, verður arfleifð sem fær samfélagslegar afleiðingar.

Að sama skapi má hugsa að lífshættir þeirra sem búa við langvarandi skort á ýmsum sviðum, hvort sem hann er fjárhagslegur, félagslegur eða menningarlegur erfist líka á milli kynslóða. Fjárhagur foreldra og aðstæður barna hafa þannig áhrif á tækifæri barna til frambúðar.

Til að rjúfa vítahring fátæktar meðal barna er nauðsynlegt að bæta hag foreldra. Menntun þeirra og tækifæri á vinnumarkaði eru mikilvægustu þættir í því að auka tekjur og þar með lífsgæði og koma þannig í veg fyrir að viðhalda fátækt og félagslegum arfi á milli kynslóða. Ásamt því að auka tækifæri barna þeirra til menntunnar, þátttöku í íþróttum, tómstundum og listum. Samkvæmt rannsóknum geta aðgerðir stjórnvalda til að auka möguleika fátækra foreldra og barna þeirra haft þau áhrif að bæta stöðu fátækra til frambúðar.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×