Erlent

Tímaritið Rolling Stone dæmt fyrir ærumeiðingar vegna greinar um kynferðisbrot

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Brotið átti að hafa átt sér stað í húsnæði bræðralagsins Phi Kappa Psi árið 2012. Rapparinn Future prýðir forsíðu nýjasta heftis Rolling Stone
Brotið átti að hafa átt sér stað í húsnæði bræðralagsins Phi Kappa Psi árið 2012. Rapparinn Future prýðir forsíðu nýjasta heftis Rolling Stone Vísir/Getty/Rolling Stone
Tímaritið Rolling Stone hefur, ásamt blaðamanninum Sabrinu Rubin Erdely, verið dæmt sekt fyrir ærumeiðingar vegna fréttar um hópnauðgun í háskólanum í Virginíufylki.

Greinin, sem Erdely skrifaði, var birt árið 2014 og innihélt meðal annars fullyrðingu nemanda um að henni hafi verið nauðgað. Rolling Stone dró greinina til baka í apríl árið 2015 á þeim grundvelli að í henni væri ósamræmi.

Greinin var níuþúsund orða löng og hét „Rape on Campus“ eða nauðgun á skólasvæði. Burðarefni greinarinnar var nafnlaus frásögn nemenda sem kölluð var Jackie, sem sagði að sér hefði verið nauðgað í partýi bræðralagsins Phi Kappa Psi árið 2012.

Rannsókn lögreglunnar í Charlottesville gaf ekki til kynna að stúlkunni hefði verið nauðgað. Nicole Eramo hafði umsjón með eftirliti kynferðisbrota hjá háskólanum þegar greinin var birt. Ekki er vitað hve háa fjárupphæð hún fær í skaðabætur og verður það ákveðið síðar.

Vankantar á öllum ritstjórnarstigum

Tíu manna kviðdómur í Charlottesville dæmdi svo að Erdely væri sek um ærumeiðingar af ráðnum hug. Tímaritið og útgefandi þess voru einnig fundin sek fyrir ærumeiðingar gegn Eramo.

Lögfræðingar Erdely og Rolling Stone sagði að tímaritið viðurkenni mistök sín en töldu sig á sama tíma ekki gert neitt af ásettu ráði.

Í skýrslu frá fjölmiðlafræðideild Columbia háskóla, sem Rolling Stone pantaði, kom í ljós að vankantar voru á öllum ritstjórnarstigum blaðsins.

Í yfirlýsingu frá Rolling Stone segir „Það er von okkar að mistök okkar skyggi ekki á þau mikilvægu málefni sem grein okkar vakti athygli á, og að fréttir okkar af kynferðisbrotum leiði af sér betra regluverk á háskólasvæðum sem verndi nemendur betur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×