Erlent

Maður sem skaut tvo lögregluþjóna handsamaður

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan hefur birt þessa mynd af Greene.
Lögreglan hefur birt þessa mynd af Greene. Vísir/AFP
Lögreglan í Iowa í Bandaríkjunum hefur handtekið mann sem grunaður er um að hafa myrt tvö lögregluþjóna í borginni Des Moines í nótt. Hinn 46 ára gamli Scott Michael Greene er sagður hafa setið fyrir lögregluþjónunum og skotið þá til bana þar sem þeir sátu í bílum sínum.

Árásirnar áttu sér stað á tuttugu mínútna tímabili og voru einungis þrír kílómetrar á milli launsátranna.

Samkvæmt AP fréttaveitunni fóru fjöldinn allur af lögregluþjónum á vettvang fyrstu árásarinnar en seinni lögregluþjónninn var skotinn á gatnamótum þar sem hann var á leið á vettvang fyrri árásarinnar.

Fyrr í mánuðinum var Greene fylgt af lögreglu af íþróttaviðburði menntaskóla í Des Moines þar sem hann var að veifa fána Suðurríkjanna að þeldökku fólki. Hann tók samskipti sín við lögreglu upp á myndband.

Þá höfðaði hann mál gegn móður sinni þann 17. október fyrir að hafa slegið hann í andlitið og klórað hann. Dómari úrskurðaði að móðir hans skyldi halda sér frá syni sínum í framtíðinni.

Tveimur dögum síðar var lögregla kölluð til eftir að kvartað var undan Greene þar sem hann hafði hótað að drepa mann sem hann fór að rífast við á bílastæði. Þar að auki er hann sagður hafa öskrað rasíska hluti að manninum.

Hann játaði brot sitt og var settur á skilorð í eitt ár og skikkaður til að fara í meðferð fyrir neyslu fíkniefna og sálfræðimat. Báðir lögregluþjónarnir sem Greene myrti voru hvítir. Hann var svo handtekinn á heimili sínu í dag, en lögreglan segir tilefni árásanna ekki liggja fyrir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×