Skoðun

Hver selur eignina þína?

Sigríður Hrund Guðmundsdóttir skrifar
Fyrir skömmu hitti ég gamlan starfsfélaga, sem er ekki í frásögur færandi að öðru leyti en því að hann fór að rekja raunir systur sinnar við sölu fasteignar nýverið. Málið var komið í hnút og hver benti á annan. Þú ert löggiltur fasteignasali, ekki rétt? spurði hann mig. Var ekki verið að breyta lögunum? Jú, mikið rétt, lögum um fasteignasala var breytt á liðnu ári og nú eiga löggiltir fasteignasalar að sjá um viðskiptin frá upphafi til enda.

Í þessu dæmi höfðu nokkrir aðilar komið að sölunni, bæði fasteignasalar og aðstoðarmenn þeirra. Þeir höfðu séð um að skoða fasteignina, taka við tilboðum og vera í samskiptum við kaupanda og seljanda fram að því að kaupin tókust með samþykki kauptilboðs. Eftir það fór málið í hendur annarra fasteignasala innan fasteignasölunnar sem falið var að sjá um frágang kaupsamnings og uppgjör kaupverðsins. Vandamálið var að þegar ágreiningur kom upp og kaupandinn hélt eftir greiðslu þá var það hlutverk þeirra sem ganga frá kaupsamningnum að reyna að leysa úr þeim ágreiningi. Þessir fasteignasalar höfðu þó ekki skoðað né sýnt eignina eða verið í samskiptum við aðila um kaupin, fram að því að komið var að frágangi kaupsamnings og afsals.

Eins og vandamálinu var lýst fyrir mér þá olli þessi staða því að þeir fasteignasalar sem falið var að gera upp viðskiptin gátu litla aðstoð eða ráðgjöf veitt um lausn deilunnar þar sem þeir höfðu t.d. ekki skoðað fasteignina sjálfir og voru lítið inni í því ferli sem á undan hafði gengið. Lítil aðstoð hafði því fengist við að ná sátt um lausn málsins og deilan komin í ágreining fyrir dómstólum.

Því miður er þessi saga ekkert einsdæmi og út frá þessari raunasögu félaga míns má draga þann lærdóm að heppilegast sé að sölunni sé fylgt eftir af sama fasteignasalanum frá upphafi til enda. Hann eða hún er þá betur í stakk búinn til að grípa inn í ef vandamál koma upp og vinna að farsælli lausn þeirra. Reynsla fasteignasalans skiptir þar miklu máli, svo í upphafi skal endinn skoða.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×