Erlent

Yfirvöld í Tyrklandi þrengja enn frekar að málfrelsi í landinu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fjöldi fólks mótmælti í gær handtöku ritstjóra Cumhuriyet, sem er eitt fárra dagblaða stjórnarandstöðunnar sem enn er gefið út í Tyrklandi.
Fjöldi fólks mótmælti í gær handtöku ritstjóra Cumhuriyet, sem er eitt fárra dagblaða stjórnarandstöðunnar sem enn er gefið út í Tyrklandi. vísir/epa
Yfirvöld í Tyrklandi hafa handtekið ritstjóra og blaðamenn á dagblaðinu Cumhuriyet, sem er eitt fárra dagblaða stjórnarandstöðunnar sem enn er gefið út þar í landi.

Daginn áður voru tíu þúsund opinberir embættismenn reknir á einu bretti, allir grunaðir um tengsl við Gülenista-samtökin sem tyrkneskir ráðamenn telja bera ábyrgð á tilraun til stjórnarbyltingar í júlí.

Síðan í sumar hafa meira en 40 þúsund manns verið handteknir og að minnsta kosti hundrað þúsund reknir í Tyrklandi, grunaðir um tengsl við Gülenista-samtökin. Meðal hinna handteknu og reknu eru fjölmargir dómarar, hermenn, lögreglumenn og kennarar.

Bæði Evrópusambandið og Bandaríkin hafa harðlega gagnrýnt handtökur blaðamanna og lokanir fjölmiðla í Tyrklandi. Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins, sagði tyrknesk stjórnvöld með þessu hafa farið yfir enn eina „rauðu línuna“ gegn tjáningarfrelsi.

Binali Yildirim forsætisráðherra sagðist ekkert mark taka á aðfinnslum Evrópusambandsins.

„Okkur varðar ekkert um rauðu línuna ykkar. Það er þjóðin sem dregur rauðu línuna,“ sagði hann. „Tyrkland fær völd sín frá þjóðinni og yrði dregið til ábyrgðar af þjóðinni.“

Eftir byltingartilraunina í júlí lýsti Recep Tayyip Erdogan forseti yfir neyðarástandi, sem veitir stjórnvöldum víðtækar heimildir til aðgerða gegn hverjum þeim sem grunaður er um tengsl við byltingarmennina. Í síðasta mánuði var þetta neyðarástand framlengt um níutíu daga til viðbótar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×