Erlent

Öllum íbúum grænlensks þorps boðin áfallahjálp eftir banaslys

Atli Ísleifsson skrifar
Sermersooq.
Sermersooq. Vísir/Getty
Öllum íbúum Qeqertarsuatsiaat á vesturströnd Grænlands hefur verið boðin áfallahjálp eftir að átján ára piltur fórst í bátaslysi um helgina. Hinn látni og fimmtán ára félagi hans voru á leið heim af rjúpnaveiðum þegar bátnum var siglt á land með þeim afleiðingum að maðurinn kastaðist úr bátnum og lést.

Katrine Johnsen, yfirmaður hjá lögreglunni í Sermersooq, segir í samtali við Ekstra Bladet að íbúar Qeqertarsuatsiaat séu einungis um hundrað talsins og að slysið hafi skiljanlega tekið mikið á þorpsbúa. Allir hafi þekkt piltinn og hafi sveitarfélagið ákveðið að bjóða öllum íbúum áfallahjálp.

Fimmtán ára félagi hins látna slapp með skrámur. „Hann var yfirheyrður í gær og er ekki talið að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað.“

Í frétt Ekstra Bladet kemur fram að félagarnir hafi verið á leið heim af rjúpuveiðum þegar slysið varð. Fimmtán ára piltinum tókst ekki að flytja félaga sinn yfir í bátinn og ekkert símasamband var á staðnum svo hann ákvað að sigla aftur til bæjarins í leit að aðstoð.

Þegar þeir sneru aftur fannst átján ára pilturinn meðvitundarlaus í sjónum. Hann var fluttur á sjúkrahús og lést af völdum sára sinna skömmu síðar.

Að sögn Johnsen voru engin ljós um borð í bátnum þegar slysið varð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×