Skoðun

Áramótateiti Trumps?

Hulda Vigdísardóttir skrifar
Í augum margra er hann faðir minn sannkallaður ævintýramaður. Óútreiknanlegur og spennandi. Hann starfar sem leiðsögumaður og er alltaf með annan fótinn á Íslandi en hinn, tja, einhvers staðar annars staðar. Hann er fljótur að kynnast nýju fólki og þó hann sjálfur hleypi ekki hverjum sem er að sér (og í raun afar fáum) lítur fjöldi fólks um allan heim á hann sem trúnaðarvin og segir honum jafnvel sín dýpstu leyndarmál.

Í gegnum árin hef ég oft verið spurð hvar pabbi sé staddur og hvað hann sé að gera: „Oh! Hvað er hann pabbi þinn að bralla skemmtilegt núna? Hvar í heiminum er hann? Hvað er hann að gera þar? Hvað ætlar hann svo að gera næst? Veistu það? Verður hann eitthvað á Íslandi á næstunni? Það er alltaf svo spennandi að fylgjast með honum!“ Og þó ég hafi e.t.v. ekki alltaf verið ýkja hrifin af lítilli viðveru hans hér heima og stöðugu spurningaflóði ættingja og vina, hefur spennandi líferni hans oft veitt mér innblástur og ég fengið að ferðast mikið og kynnast heiminum á annan hátt en margir jafnaldrar mínir.

Fyrir rúmu ári síðan tók pabbi á móti bandarískum hópi ferðamanna í Leifsstöð og fór með þeim í tíu daga ferð í kringum landið. Í þessum hópi var áttræð ekkja frá Manhattan sem ákvað strax á fyrsta degi ferðar að kynnast Íslandi enn betur og koma aftur að ári liðnu. Þá ákvörðun stóð hún við og í sumar ferðuðust þau pabbi um landið og skoðuðu alla króka og kima. Þar sem eitt helsta áhugamál pabba er alþjóðastjórnmál, barst talið eitt kvöldið að forsetakosningum Bandaríkjanna 2016. Eitt leiddi af öðru og áður en pabbi vissi af var honum boðið í heimsókn til Bandaríkjanna.

Afþakkaði heimboðið

En þetta heimboð var ekki bara hvenær sem er, hvert sem er né heldur í hvaða erindagjörðum sem er. Nú stóð pabba skyndilega til boða að heimsækja blómafylkið Flórída, vetrardvalarstað ekkjunnar, um áramótin. Og nei, ekki stóð til að spranga léttklædd um á ströndinni með sólgleraugu á nefinu, né heldur myndataka með Mikka mús, ef út í það er farið. Honum var hér með formlega boðið í áramótateiti einhvers umdeildasta manns okkar daga, Donalds Trump.

Svo hvar er pabbi? Hvað er hann að bralla skemmtilegt núna? Og hvar í veröldinni verður hann um næstu áramót? Situr hann tveimur borðum frá verðandi forseta Bandaríkjanna og bíður eftir litríkri flugeldasýningu til marks um að árið 2017 sé gengið í garð? Árið sem Trump tekur við forsetaembætti eins valdamesta ríkis heims nú á dögum. Árið sem margir óttast. Árið sem allt getur gerst.

Nei, hann verður á Snæfellsnesi. Hann verður á Snæfellsnesi að gæta steinasafns vinar síns og var sko ekki lengi að afþakka heimboðið til Flórída þegar hann vissi hver héldi veisluna. Ég get því með stolti sagt að þessi áramót sé faðir minn steinasafnvörður á Snæfellsnesi. Hann er ekki gestur Trumps, hvorki í áramótateiti né annars staðar og ég vona að sem fæstir taki boðum hans næstu fjögur ár, allavega valdboðum hans.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×