Fótbolti

Müller fékk að heyra það frá San Marinó

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Forráðamenn knattspyrnusambands San Marínó hafa krafið Thomas Müller, sóknarmann þýska landsliðsins, um afsökunarbeiðni.

Þýskaland vann 8-0 sigur á San Marínó í undankeppni HM 2018 á föstudag en eins og gefur að skilja átti landslið smáríkisins ekki roð í heimsmeistarana.

Müller sagði eftir leikinn lið eins og Þýskaland ætti ekki að spila gegn liði eins og San Marínó - „áhugamannaliði,“ eins og hann orðaði það sjálfur. Það eina sem leikurinn fæli í sér væri meiðslahætta fyrir leikmenn Þýskalands.

Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern München, tók undir þessa gagnrýni og sagði að San Marínó ætti ekkert skylt við atvinnumannaknattspyrnu.

Teodoro Lonfernini, íþróttamálaráðherra San Marínó, hefur kallað eftir formlegri afsökunarbeiðni frá Müller vegna ummæla hans eftir leikinn.

„Þýskaland er heimsmeistari en þeir eru alráðir í heiminum,“ sagði Lonfernini.

Alan Gasperoni, talsmaður Ólympíunefndar San Marínó, tjáði sig um málið á Facebook-síðu sinni og bauð fram tíu ástæður þess að leikurinn hefði átt að fara fram.

Og hann skaut líka á Müller sem hefur ekki enn afrekað að skora á tímabilinu, hvorki fyrir Bayern né landsliðið.

„Þú getur ekki einu sinni skorað gegn jafn lélegu liði og okkar. Ekki reyna að halda því fram að þú hafir ekki verið pirraður þegar markvörður okkar varði frá þér,“ sagði Gasperoni.

„Þetta sýndi líka að fótbolti tilheyrir þeim sem elska íþróttina og við erum hluti af því, hvort sem þér líkar við það eða ekki.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×