Skoðun

Alþingi rænir af mér 50.000 krónum á mánuði

Eggert Briem skrifar
Rétt fyrir þinglok samþykkti Alþingi að fella niður lágmarksellilífeyri allra ellilífeyrisþega sem hafa tekjur úr lífeyrissjóðum, og annars staðar frá, umfram 470.000 kr. á mánuði. Þetta á að gerast frá og með næstu áramótum. Það sem sparast á að nota til að hækka lífeyri þeirra sem minnst hafa. Ég er auðvitað ekki á móti því að þeir sem minnst hafa fái meira í sinn hlut. Ég vil bara ekki vera einn um að bæta kjör þeirra.

Ástæða þess að ég fæ 50.000 kr. á mánuði en ekki 40.000 kr. (sem er lágmarkið) er sú að ég sótti ekki um ellilífeyri fyrr en ég hætti störfum þegar ég varð sjötugur. Ég hef að sjálfsögðu, eins og líklega flestir í mínum sporum, reiknað með þessum ellilífeyri í mínum áætlunum fyrir framtíðina.

Hvað myndi vera sagt ef Alþingi hefði samþykkt að allir krabbameinssjúklingar með tekjur umfram 470.000 kr. á mánuði skuli borga sína meðferð sjálfir til að þeir sem minna hafa borgi ekki neitt? Eða að hjúkrunarfræðingar skuli lækka um 40.000 kr. á mánuði til að hækka megi ræstingafólk á lægstu töxtum?

Tölur um úrslit kosninga sýna að helmingur þingmanna situr því miður áfram á þingi. Vonandi geta nýir þingmenn komið vitinu fyrir þennan helming. En kannski slást þeir bara í hóp með hinum og nota ellilífeyri minn og annarra til að borga 350.000 króna mánaðarhækkun þingfararkaups.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×