Enski boltinn

Sir Alex henti Bruce, Pallister, Irwin og Robson: „Ég var ekki faðir þeirra heldur stjóri“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sæll, Bryan. Þú mátt fara núna. Takk fyrir allt.
Sæll, Bryan. Þú mátt fara núna. Takk fyrir allt. vísir/getty
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, viðurkennir að hann átti erfitt með að losa sig við nokkrar af hetjunum úr United-liðinu árið 1994 sem voru þá búnir að vinna tvo Englandsmeistaratitla fyrir félagið.

Bryan Robson, einn dáðasti leikmaður í sögu Manchester United, var losaður en Ferguson var þá búinn að kaupa Roy Keane frá Nottingham Forest til að hressa upp á United-liðið.

Ferguson hefur ávallt fengið mikið lof fyrir að búa til hvert meistaraliðið á fætur öðru með því að losa leikmenn á réttum tíma. Suma þeirra var þó erfiðara að senda á brott en aðra.

Sjá einnig:Sir Alex opnar sig um hárþurrkuna: „Ég stjórnaði ekki með ótta“

„Þrír eða fjórir leikmenn urðu gamlir á sama tíma,“ sagði Sir Alex á viðskiptaráðstefnu í Mílanó þar sem hann talaði opinskátt um stjóratíð sína hjá Manchester United. Enska blaðið The Sun var á staðnum og hefur verið að skrifa fréttir upp úr svörum Sir Alex í dag.

„Ég varð að muna það, að ég var knattspyrnustjóri Manchester United en ekki faðir þeirra. Ég varð að segja þeim að þeirra tími væri kominn. Það var samt mjög erfitt að losa sig við Steve Bruce, Gary Pallister, Denis Irwin og Bryan Robson.“

„Sumir gætu sagt að þetta væri harkalegt en þetta snerist bara um hollustu við félagið. Ég var stjóri þeirra og var með mennina í vinnu. Það var undir mér komið að sjá til þess að Manchester United var ávallt besta liðið,“ segir Sir Alex Ferguson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×