Skoðun

Sjúkraþjálfun – Beint aðgengi

Sveinn Sveinsson skrifar
Umræðan um aukið álag á slysadeild og lækna á heilsugæslustöðvum er þörf og í því samhengi er gott að vita að hægt er að leita beint til sjúkraþjálfara.

Sjúkraþjálfarar eru þeir sem koma að endurhæfingu eftir slys, áverka eða veikindi. Sjúkraþjálfari er sá sem léttir á verkjum, liðkar og kennir æfingar til að styrkja svæði, kennir rétta líkamsbeitingu við vinnu og kemur fólki af stað aftur. Sjúkraþjálfari leiðbeinir, útskýrir og er sá aðili sem kemur mest að endurhæfingu. Beint aðgengi er nú að sjúkraþjálfurum og þarf ekki að leita til læknis áður en farið er til sjúkraþjálfara.

Í góðum samskiptum við lækna

Sjúkraþjálfarar eru hins vegar í góðum samskiptum við lækna og vísa til þeirra þeim málum sem ekki lagast hratt. Þessu beina aðgengi er gott að vita af, þegar upp koma verkir eða minniháttar slys og tognanir. Sjúkraþjálfari getur metið áverkann, lagt mat á stöðuna, gefið ráðleggingar, búið um tognanir, minnkað bólgur, dregið úr verkjum, og það sem er mikilvægast, ráðlagt um næstu skref og hvernig viðkomandi getur hagað sér til að flýta fyrir bata og bæta líðan. Sjúkraþjálfarar senda ekki í rannsóknir, og skrifa ekki upp á lyf.

Á Íslandi eru yfir 400 starfandi sjúkraþjálfarar sem koma að endurhæfingu. Það er góð viðbót við þá 10 endurhæfingarlækna sem eru starfandi, enda vinna þessir aðilar vel og náið saman. Hvort heldur á endurhæfingarstöðvum eins og Reykjalundi, Grensás og Heilsustofnun NLFÍ eða á öllum þeim einkareknu sjúkraþjálfunarstöðvum sem eru starfandi. Saman vinna þessir aðilar frábært starf, og koma einstaklingum til baka til vinnu, í frístundir, í gönguferðir, í íþróttir og að njóta þess sem er í boði í lífinu, án verkja. Það þarf ekki alltaf lyf til þess, heldur utanumhald og færni sjúkraþjálfarans og mikla samvinnu.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×