Skoðun

Hvernig skóla viltu fyrir börnin þín og barnabörn?

Kristín Arnardóttir skrifar
Ég hef starfað sem kennari í grunnskóla allan minn starfsaldur. Ég er fagmaður og á að baki sex ára háskólanám ásamt fjölmörgum lengri og styttri námskeiðum. Ég hef mikinn metnað fyrir hönd grunnskólans og mér finnst mjög mikilvægt að öll börn fái vandaða, vel undirbúna kennslu sem hæfir getu og áhugasviði. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Það liggur mikil fagmennska, alúð og samstarf að baki hverri vandaðri kennslustund.

Svipast eftir öðrum störfum

Á næstu þremur árum mun stór hópur samkennara minna fara á eftirlaun. Yngra fólkið er nú þegar að svipast eftir öðrum störfum sem eru betur launuð og njóta meiri virðingar í samfélaginu. Aðsókn í kennaranám hefur dregist mjög saman og aðeins hluti þess hóps sem útskrifast leggur fyrir sig kennslu. Mér líður eins og bónda sem hefur unnið af alúð á býli sínu einungis til að sjá það leggjast í eyði að starfsævinni lokinni.

Skólastarf í höndum leiðbeinenda er ekki vönduð kennsla og ekki unnið af fagmennsku. Framtíð íslenskra grunnskóla verður fagleg eyðimörk innan fárra ára. Ég er sorgmædd og flestir kollegar mínir eru það líka. Og við erum öskureið.

Ábyrgðin er stjórnvalda

En ábyrgðin er ekki okkar. Ábyrgðin er stjórnvalda sem hafa skorið niður inn að beini og nú er ekkert lengur til að skera. Ef þú berð hag barna þinna og barnabarna fyrir brjósti ættir þú líka að vera sorgmædd/mæddur. Deildu þessum texta ef þér er ekki sama. Láttu þessa vitneskju berast um samfélagið. Láttu í þér heyra.

Samningarnir sem nú verða gerðir snúast ekki um krónur og aura til þeirra sem nú eru í kennarastarfi. Þeir snúast um sjálfsvirðingu okkar og framtíð skólakerfisins og framtíð barnanna okkar. Fjöregg þjóðarinnar.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×