Skoðun

Vegvísir að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar

Ágúst Þór Árnason og Skúli Magnússon skrifar
Allt frá stofnun lýðveldisins árið 1944 hefur staðið til að fram færi heildarendurskoðun stjórnarskrár Íslands. Frá þeim tíma hafa ýmsar veigamiklar breytingar verið gerðar, einkum á kosninga- og kjördæmaskipan, deildaskipan og störfum þingsins, svo og ákvæðum um grundvallarréttindi. Enn hefur þó ekki orðið af þeirri endurskoðun sem óumdeilanlega var heitið við lýðveldisstofnunina.

Metnaðarfyllsta tilraunin til heildarendurskoðunar er án efa setning laga um Stjórnlagaþing árið 2010 og tillögur Stjórnlagaráðs sem kynntar voru á þeim grunni sumarið 2011. Frumvarp til nýrrar stjórnarskrár sem lagt var fram á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs haustið 2012 náði hins vegar ekki fram að ganga, sem kunnugt er. Þá leiddi vinna stjórnarskrárnefndar sem skipuð var síðla hausts 2013 og skipuð var fulltrúum tilnefndum af öllum þingflokkum ekki heldur til breytinga.

Ekki þarf að orðlengja mikilvægi þess að um stjórnarskrá lýðveldisins ríki víðtæk sátt. Hávær krafa hefur um nokkurt skeið verið um heildarendurskoðun og í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012 samþykktu 64,2% þeirra sem greiddu atkvæði að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Þrátt fyrir þetta verður ekki fram hjá því litið að umræða síðustu missera hefur einkennst af togstreitu milli þeirra sem telja að leggja eigi tillögur Stjórnlagaráðs til grundvallar, meira eða minna óbreyttar, og þeirra sem virðast vilja sem allra minnstar eða jafnvel engar breytingar.

Skúli Magnússon sat í stjórnlaganefnd 2010-2011.Vísir/Þorbjörn Þórðarson
Við þessar aðstæður leggjum við eftirfarandi til:

1. Að Alþingi samþykki langtímaáætlun, t.d. 12 ár, um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, helst einróma, þar sem vísað væri til helstu efnislegu forsendna endurskoðunar, svo sem frumvarps Stjórnlagaráðs og reynslunnar af gildandi reglum.

2. Að í ályktun Alþingis sé kveðið á um stofnun a.m.k. 30 manna Stjórnarskrárráðs sem í væri valið af handahófi (þó þannig að gætt væri að jöfnum hlutföllum kynja og kjördæma) úr hópi þeirra Íslendinga sem gæfu kost á sér til þessara starfa. Gera ætti ráð fyrir því að ráðið kæmi til fundar a.m.k. einu sinni á ári og skipun í ráðið væri tímabundin.

3. Að í ályktun Alþingis sé kveðið á um skipun stjórnarskrárnefndar sem í eiga sæti a.m.k. fimm sérfræðingar á sviði stjórnlaga, stjórnmálafræði og/eða stjórnmálaheimspeki. Hlutverk nefndarinnar ætti að vera að undirbúa tillögur, eftir atvikum með aðstoð annarra sérfræðinga og/eða vinnuhópa, sem lagðar yrðu fyrir Stjórnarskrárráð til nánari umfjöllunar, samþykktar, synjunar eða breytinga. Stjórnarskrárráð gæti einnig lagt fyrir nefndina að vinna tillögur um ákveðin efni eða sett henni markmið.

Með því fyrirkomulagi sem hér er gerð tillaga um væri ekki haggað við reglum gildandi stjórnskipunar um breytingar á stjórnarskránni. Eftir sem áður væri það því í höndum ráðherra og þingmanna að leggja fram formleg frumvörp til stjórnskipunarlaga fyrir Alþingi sem hefði, ásamt þjóðinni, lokaorðið um breytingar. Með þessu væri hins vegar orðinn til sjálfstæður ferill og nýtt samtal um heildarendurskoðun, með aðkomu almennings studds af sérfræðingum, sem gæti rofið núverandi þrátefli og varðað veginn til sáttar.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×