Skoðun

Nöldur, vanþekking, fordómar og fleipur – umræða í boði Félags leiðsögumanna

Jakob Jónsson skrifar
Í umræðu á Hringbraut 7. nóvember sl. bentu stjórnarmenn Félags leiðsögumanna, þau Vilborg Anna Björnsdóttir, settur formaður, og Kári Jónasson meðstjórnandi, á það sem helsta mein ferðaþjónustunnar að um landið færu erlendir hópstjórar eða leiðsögumenn sem vissu ekki einu sinni hvar Skútustaðagígar eru. Þau hneyksluðust á þessu fúski og ástandið er að mati þeirra „alveg svakalegt“.

Félag leiðsögumanna getur þó lítið að gert því löggildingu skortir á starfsheitinu leiðsögumaður. Þar með verði hvorki erlendir né innlendir fúskarar stöðvaðir og hver sem er getur starfað sem leiðsögumaður á Íslandi. Mátti á Vilborgu Önnu og Kára skilja að fúskararnir borguðu hvorki aðstöðugjöld né gistináttagjöld og skildu engar tekjur eftir sig í landinu. Ekki voru borin fyrir þessum staðhæfingum önnur rök en sögusagnir. Að sögn Kára var „veikburða tilraun … um að kippa þessu í lag, en það var eitt af þessum málum sem dagaði uppi á Alþingi …“

Vilborg Anna og Kári vilja að löggjafinn taki á þessu, „annars fer eitthvað mikið úrskeiðis hérna …“ og verða þau „voða lítið vör við það að samtök ferðaþjónustunnar séu að berjast fyrir því að það séu bara menntaðir leiðsögumenn og að stoppa erlenda leiðsögumenn …“ Verst er þó að forsvarsmenn ferðamála eru ekki að tala við Félag leiðsögumanna um þetta! Það er grafalvarlegt, því samkvæmt Vilborgu Önnu og Kára eru leiðsögumenn líka landverðir. Og öryggisverðir! Og svo eru til leiðsöguskólar sem eru hvorki viðurkenndir af menntamálaráðuneyti né kenna eftir viðurkenndri námskrá!

Það er ábyrgðarhluti að fara fram í umræðu með nöldri, vanþekkingu, fordómum og fleipri. Settur formaður Félags leiðsögumanna og meðstjórnandi eiga að vita betur!

Vilborg Anna og Kári tala eins og það sé í verkahring leiðsögumanna að hafa eftirlit með því að erlendir leiðsögumenn eða hópstjórar fari ekki fram með fúski, röngum upplýsingum og undanskotum af aðstöðugjöldum og gistináttagjöldum. Ég veit ekki til að neins staðar finnist það félag leiðsögumanna sem telji sig hafa slíkt eftirlitsvald, hvað þá að félagsmenn þess séu í ofanálag landverðir og öryggisverðir!

Á síðasta kjörtímabili var barist fyrir því að virðisaukaskattur yrði lagður á starfsemi erlendra ferðaþjónustufyrirtækja – einmitt til þess að þau greiddu gjöld hér á landi. Ef Vilborg Anna og Kári vita að fyrirtæki standa ekki skil á skatti og gjöldum er eðlilegra að láta rétt yfirvöld vita í stað þess að ala á gremju í þeirra garð í fjölmiðlum.

Það er ótækt að bera fyrir sig sögusögnum þegar talað er um að grípa í tauma varðandi starfsemi erlendra leiðsögumanna eða hópstjóra. Umfang þeirrar starfsemi er örugglega nokkurt, en um það er ekkert vitað. Það væri ráð að afla sér vitneskju áður en farið er offari í fjölmiðlum.

Það er allsendis óljóst hvernig löggilding starfsheitis leiðsögumanna á að ráða bót á því ástandi sem þau Vilborg Anna og Kári kalla „alveg svakalegt“. Frumvarp til laga sem lagt var fyrir Alþingi sl. vetur byggði á löggildingu út frá hugtakinu „viðurkennd námskrá“ – en hún er ekki til nema í huga stjórnarmanna Félags leiðsögumanna. Alþingi getur ekki byggt ákvarðanir sínar á hugarfóstrum.

Enginn leiðsöguskóli hefur verið viðurkenndur í þeirri merkingu sem þau Vilborg Anna og Kári tala um í Hringbrautarþættinum. Ekkert leiðsögunám hérlendis veitir nein réttindi; það verður að koma reglu á starfsemi leiðsögumanna með öðrum hætti – og farsælla að það sé gert í samræmi við framtíðarstefnu stjórnvalda og þróun ferðaþjónustu hér á landi.

Þáttastjórnandi Hringbrautar hefði getað aflað sér upplýsinga um þessi mál áður en stjórnarfólki Félags leiðsögumanna var leyft að dreifa sögusögnum og fara með fleipur í þættinum. Vinnubrögð Hringbrautar voru ófagleg hvað þetta varðar og ekki til framdráttar vandaðri umræðu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×