Enski boltinn

Redknapp: Gerrard má ekki bíða of lengi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Redknapp glottir í kampinn.
Redknapp glottir í kampinn. vísir/getty
Jamie Redknapp, fyrrum leikmaður Liverpool og sonur Harry Redknapp, segir að Steven Gerrard þurfi að taka sér smá frí frá fótbolta, en megi samt ekki bíða of lengi eftir sínu fyrsta þjálfarastarfi.

Gerrard lagði skóna á hilluna á dögunum, en honum bauðst að taka við enska C-deildarliðinu MK Dons. Fyrrum fyrirliði Liverpool hafnaði boðinu.

„Engin óvirðing í garð MK Dons, en ég held að hann þurfi smá frí núna, til að njóta með fjölskyldunni sinni," sagði Redknapp við fjölmiðla.

„Hann þarf smá frí núna, en ég myndi segja honum að bíða ekki of lengi áður en hann tekur næsta skref. Þetta er erfitt því fullt af fólki heldur að ef þú varst frábær leikmaður þá verðuru frábær leikmaður," sagði Redknapp og hélt áfram:

„Þetta virkar ekki þannig lengur. Fullt af stjórum hafa tíu til tólf ára meiri reynslu en leikmennirnir. Þú horfir á Jose Mourinho, hann spilaði ekki á hæsta stigi, en hann var að vinna bakvið tjöldin."

Redknapp segir að það spili margt inn í þegar stjóri stígur sín fyrstu skref í þjálfun, en Redknapp spilaði meðal annars yfir 200 leiki með Liverpool á ellefu ára tímabili; frá 1991-2002.

„Þú verður að taka rétta starfið, þú þarft formann sem treystir þér og gefur þér pening og tækifæri því áður en þú veist af, þú varst frábær leikmaður með frábæru sögu, verðuru rekinn og allt getur farið á versta veg."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×