Skoðun

Gjaldtakan byrjar á bílastæðinu

Ragnheiður Davíðsdóttir skrifar
Það er eitt að greinast með krabbamein með allri þeirri angist sem því fylgir fyrir þann greinda og ástvini hans. Það er því varla ábætandi að þurfa einnig að kljást við fjárhagsáhyggjur sem því miður margir krabbameinsveikir þurfa að gera.

Varla þarf að fara mörgum orðum um óhóflega greiðsluþátttöku þeirra í heilbrigðiskerfinu; kostnað sem oft og tíðum hleypur á hundruðum þúsunda. Þeir krabbameinssjúkl­ingar sem mæta reglulega í lyfjameðferð á Landspítalann þurfa, ofan á allan annan kostnað, að greiða stöðugjald á bílastæðum við spítalann. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt og enginn kvartar yfir því. Vandinn er aftur á móti sá að fæstir vita hvað þeir dvelja lengi á spítalanum og þurfa því að gera sér ferð út af spítalanum til að endurnýja stöðugjaldið, ef þeir vilja ekki fá sekt sem er 2.500 krónur.

Allir sem þurfa að gangast undir lyfjameðferð við krabbameini, þurfa að mæta oft og því geta stöðugjöld verið umtalsverð. Það sjá allir að veikt fólk á erfitt með að hlaupa frá í miðri meðferð til þess að endurnýja stöðugjaldið. Flestir sem mæta í lyfjameðferð eru það veikir að þeir eiga erfitt með að nýta sér almenningssamgöngur og þurfa því að mæta á einkabíl.

Við sem vinnum að hagsmunamálum krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra og heilbrigðisstarfsfólk, höfum margoft orðið vitni að óánægju þessa fólks. Í ljósi þess hefur verið haft samband við borgaryfirvöld og beðið um úrlausn þessara mála. Það sem hefur verið rætt á LSH er t.d. það að þeir sem mæta reglulega í lyfjameðferð á spítalann, greiði einungis tveggja klukkustunda stöðugjald og þeir einir njóti þess sem hafi sérstaka merkingu í bílnum sínum um að þeir séu í krabbameinsmeðferð. Til að fá þennan passa þyrfti vottorð sem er undirritað af lækni viðkomandi sjúklings. Þetta er í raun svipað og gert er varðandi p-merki fyrir hreyfihamlaða. Sá passi myndi einungis gilda á meðan á meðferðinni stendur.

Hugmyndir af þessum toga hafa verið bornar undir þá sem málum stýra hjá Reykjavíkurborg – en án árangurs. Því skal reyndar haldið til haga að fólk í sömu stöðu og krabbameinsgreindir geta sótt um niðurfellingu sektar en við teljum það niðurlægjandi fyrir krabbameinsveika. Þetta mál er hægt að leysa með einföldum hætti ef viljinn er fyrir hendi. Nógar eru áhyggjur þeirra sem berjast við lífsógnandi sjúkdóm svo ekki bætist við streita vegna bílastæða og kostnaðurinn sem kann af þeim að hljótast. Honum er ekki á bætandi við þann kostnað sem þeir þurfa þegar að bera vegna sjúkdóms síns. Við skorum því á borgaryfirvöld að koma til móts við krabbameinsgreinda hvað þetta varðar.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×