Skoðun

Hátíð ljóss og friðar?

Ingibjörg Þórðardóttir skrifar
Nú er að fara í hönd árstíð ljóss og friðar með allri þeirri gleði og tilhlökkun sem ríkir, bæði hjá börnum og fullorðnum. Aðventan að hefjast og jólahátíðin á næsta leiti. Þetta er fyrir marga mjög skemmtilegur tími og mörg okkar njóta hans með fjölskyldu og vinum í þakklæti, umhyggju og gleði.

En það er því miður ekki þannig hjá öllum. Þessi tími, jólaundirbúningur og jólahátíðin, getur á sumum heimilum verið verulega flókinn og erfiður og einkennst af mikilli vanlíðan, streitu og jafnvel hættuástandi. Það kemur engum á óvart að flestir eyða meiri peningum í desember en aðra mánuði ársins og fyrir efnalitlar fjölskyldur getur þessi mánuður einkennst bæði af skorti og áhyggjum. Það er líka þekkt að neysla áfengis er meiri í desembermánuði en flesta aðra mánuði ársins og það getur á sumum heimilum valdið mikilli vanlíðan, skömm, sorg og ótta. Það sem hins vegar ekki alveg jafn margir vita er að ofbeldi á heimilum eykst líka í þessum mánuði, jólamánuðinum. Ofbeldi sem skapar óöryggi, vanlíðan, ótta, kvíða, skömm, sorg og hættuástand.

Á heimilum þar sem ofbeldi er beitt getur þetta verið erfiðasti og versti tími ársins og það er mikilvægt fyrir alla sem umgangast börn að vera meðvitaðir um þetta. Þegar mörg börn koma brosandi í skólann og full af tilhlökkun fyrir því sem koma skal, eru önnur börn sem koma brotin og án allrar tilhlökkunar. Þau koma full af kvíða yfir því sem koma skal því reynslan hefur kennt þeim að þessi tími er vondur, jafnvel hættulegur. Ég veit vel að flesta langar alls ekki til að heyra þetta, og alls ekki núna og sumir spyrja mig af hverju ég þurfi „alltaf að vera að tala um eitthvað leiðinlegt“ en það verður eiginlega bara að hafa það. Þetta er veruleiki ungra barna, fleiri barna en flesta grunar, sem hafa ekkert val um annað og þá verðum við sem erum fullorðin að taka á honum stóra okkar og hlusta. Hlusta á veruleika þessara barna og gera okkar til að grípa inn í eins og við á.

Tími streitu og ótta

Sem félagsráðgjafi hef ég, eins og svo margir aðrir félagsráðgjafar, komið að heimilisofbeldismálum í mínu starfi. Ég hef unnið með brotaþolum kynferðis- og heimilisofbeldis um árabil og þekki vel hvað þessi tími hefur oft þýtt fyrir mína skjólstæðinga. Þessi tími einkennist af mikilli streitu og ótta og ótal tilraunum til að „halda öllum góðum“, sem ekki er raunhæft því ofbeldi er aldrei á ábyrgð þess sem því er beittur.

Ekkert barn á að þurfa að lifa við það að orka þess fari í að halda pabba eða mömmu „á mottunni“ svo að jólin - eða hvaða annar tími á árinu sem er - geti verið þolanlegur og án mikilla átaka. Ekkert barn á að þurfa að vakna á aðfangadag - né nokkurn annan dag ársins - og þurfa að byrja á því að hlusta eftir aðstæðunum á heimilinu. Þurfa að læðast fram og athuga hvernig mamma og pabbi eru stemmd. Athuga hvort spenna liggi í loftinu, því trúðu mér börnin finna það um leið hvort spenna er í loftinu - þetta er þeirra veruleiki alla daga ársins. Þessi börn kvíða ekki minna fyrir jólunum heldur en þau hlakka til - og stundum er kvíðinn alls ráðandi. Mín ósk til ykkar allra sem þetta lesið er að þið munið eftir þessum börnum fyrir þessi jól og látið ykkur það varða ef þið verðið vör við óviðunandi aðstæður barna á þessari aðventu.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×