Skoðun

Kerfisbreyting Heilsugæslunnar

Ingveldur Ingvarsdóttir og Oddur Steinarsson og Óskar Reykdalsson skrifa
Undanfarin tvö ár hafa velferðarráðuneytið, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Sjúkratryggingar Íslands og Embætti landlæknis unnið að kerfisbreytingum á heilsugæslunni. Fyrirmynd þessara breytinga er sænsk og í samræmi við það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) boðar. Markmið breytinganna er að auka aðgengi að heilsugæslunni, bæta gæði og skapa fjölbreyttara starfsumhverfi innan heilsugæslunnar sem er ætlað að skili sér síðan í betri mönnun.

Greiðslukerfið er sett þannig upp að allir sitja við sama borð og dreifing fjármuna er gegnsæ. Áður hafa verið fjögur ólík greiðslukerfi fyrir heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Greiðslurnar eru samsettar úr nokkrum þáttum, en mestir fjármunir eru ætlaðir í að sinna börnum, öldruðum og fjölveikum. Sett eru fram fjölmörg gæðamarkmið sem heilsugæslustöðvum er ætlað að ná og greitt er fyrir.

Til að auka aðgengi almennings að heilsugæslu er ráðgert að tvær til þrjár nýjar heilsugæslustöðvar verði opnaðar á næsta ári. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er jafnframt að ljúka töluverðum skipulagsbreytingum til þess að mæta þessum nýju áskorunum. Hver heilsugæslustöð mun áfram sinna ákveðnum svæðum, en skjólstæðingum verður heimilt að færa sig á aðrar stöðvar eða halda áfram hjá sama lækni á sömu stöð þó þeir flytji í annað hverfi. Hjá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) verður miðlægur gagnagrunnur sem heldur utan um skráningar einstaklinga á heilsugæslustöðvar. Hver og einn getur breytt skráningu sinni á heilsugæslustöð rafrænt í gegnum Réttindagátt á heimasíðu SÍ www.sjukra.is. Einnig er hægt að breyta skráningu með því að fara á viðkomandi stöð. Fjármagni til stöðvanna er síðan dreift í samræmi við skráningu. Þannig flyst fjármögnunin með skjólstæðingnum, sem byggir meðal annars á aldri, kyni, sjúkdómsgreiningum og gæðaþáttum. Þetta er gert til þess að skapa hvata fyrir bætt aðgengi og betri þjónustu.

Þegar eru farnar að sjást breytingar varðandi bætt aðgengi á seinni hluta þessa árs miðað við fyrra ár, hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna þessara kerfisbreytinga. Auknir fjármunir hafa verið settir í heilsugæsluna og er því fé vel varið miðað við þann árangur sem er að byrja að sjást. Það er okkar von að heilsugæslan styrkist áfram og samhliða því verði áfram settir auknir fjármunir í hana enda er það í samræmi við það sem alþjóðastofnanir mæla með. Heilsugæslan getur því farið að standa undir nafni sem fyrsti viðkomustaðurinn í kerfinu og verið sá hornsteinn í heilbrigðisþjónustu sem henni er ætlað að vera.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×