Skoðun

Að velja draumastarfið

Jónella Sigurjónsdóttir skrifar
Ég man svo vel vorið þegar ég var 20 ára. Þetta var spennandi tími, ég var um það bil að ljúka framhaldsskólanum og velti því fyrir mér hvað tæki við. Mig langaði til þess að mennta mig meira og ákvað því að kynna mér alla valkosti með opnum huga. Ég fór á opinn dag í háskólunum og skoðaði allar þær kynningar sem ég gat ímyndað mér að ég hefði einhvern áhuga á. Fyrst í stað beitti ég útilokunaraðferðinni en að lokum féll ég fyrir vel heppnuðum kynningarbæklingi frá Kennaraháskóla Íslands þar sem mér var lofað að í skólastarfinu væri enginn dagur eins. Þetta hljómaði vel. Mér leist vel á námið og skólaumhverfið hafði svo sem alltaf höfðað til mín. Hvað gat farið úrskeiðis?

Þremur árum síðar útskrifaðist ég sem grunnskólakennari, réð mig stolt í fyrstu alvöru vinnuna mína og varð samstundis kennari af lífi og sál. Þetta var frábært starf. Álagið var reyndar mikið og starfið var öðruvísi en ég hafði haldið, stundum erfitt og talsvert mikið flóknara. En svo sannar­lega voru engir tveir dagar eins. Síðan kom að fyrsta útborgunardegi. Jú, ég hafði verið kærulaus, hafði alveg heyrt af óánægju kennara með kjör sín og meira að segja upplifað verkföll kennara minna. En satt að segja hafði ég aldrei trúað þessum tröllasögum almennilega. Ég hafði ekki einu sinni haft fyrir því að athuga fyrirhuguð launakjör mín áður en ég hóf námið og ekki heldur meðan á náminu stóð. Sú smánarupphæð sem var lögð inn á bankareikninginn minn kom mér því gjörsamlega í opna skjöldu.

Hvernig gat ég verið svona vitlaus? Ef ég væri 20 ára í dag þá myndi ég auðvitað áfram reyna að velja mér nám sem félli að áhugasviði mínu. En ef ég ímynda mér örlítið skynsamari útgáfu af sjálfri mér þá myndi ég einnig athuga hvort ég gæti yfirleitt lifað af starfinu. Það hlýtur þó að vera lágmarkskrafa að langskólagenginn sérfræðingur geti séð sjálfum sér farborða með starfi sínu.

Skoðum þetta aðeins. Í dag er kennaranámið orðið 5 ár. Sem er hið besta mál. En það þýðir líka að ég yrði tveimur árum lengur á námslánum. Ef vel gengi gæti ég vonast til þess að útskrifast 25 ára með 7,8 milljóna króna lán á bakinu. Með árstekjur upp á 5 milljónir tæki það mig 52 ár að borga lánið upp samkvæmt reiknivél LÍN. Sem sagt, námslánin uppgreidd á 77 ára afmælisdaginn, frábært!

En hvers vegna segi ég að árstekjurnar verði aðeins 5 milljónir? Jú nýútskrifaður kennari getur vænst þess að fá 418.848 kr. í heildarlaun á mánuði. Með annaruppbótum er hægt að toga árstekjurnar upp í næstum 5,2 milljónir.

Fátt breyst frá fyrsta áfalli

Þá er að skoða hvað ég get keypt mér sniðugt fyrir alla þessa peninga. Það er fljótlegt að sjá á neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins að ég þarf um 225.000 kr. fyrir mánaðarlegum útgjöldum. Iss piss ekkert mál! Með útborguðu launin mín í vasanum, 299.730 kr., á ég nóg fyrir þeim. Úbbs ne,i þetta er víst fyrir utan húsnæðiskostnað. Jæja, gerum ráð fyrir smá heppni á húsnæðismarkaðnum og að ég fái leigða íbúð á 120.000 kr. Það gæti kannski gerst. En æ þetta er allt að fara í vitleysu! Nú er ég komin í 45.000 kr. mínus og á meira að segja eftir að borga af námsláninu. Sem betur fer þarf ég ekki að borga af því fyrstu tvö árin. En hvað svo?

Eftir þessa stuttu athugun sé ég að fátt hefur breyst frá því að ég fékk mitt fyrsta áfall yfir launaseðlinum. Líklega hefur ástandið bara versnað. En eitt hefur greinilega breyst. Ungt fólk er skynsamara í dag en ég var fyrir rúmlega 20 árum. Það leggur á sig að setja upp einföld reikningsdæmi og sér strax það sem ég sé nú: dæmið gengur ekki upp. Það borgar sig ekki að leggja á sig langt nám til þess að verða kennari. Satt að segja hafa fáir efni á því. Íslenskir grunnskólakennarar ná ekki meðallaunum í landinu og þeir ná ekki heldur miðgildi launa. Allt þetta veldur því að stéttin okkar er hægt og bítandi að deyja út. Hvað þarf til þess að samfélagið átti sig á þessum vanda og sameinist um að grípa til varanlegra aðgerða?

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×