Enski boltinn

Zlatan áfram með Man. United á næsta tímabili | „Eftir það getur hann gert hvað sem honum sýnist“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur gefið það út að Svíinn Zlatan Ibrahimovic muni spila áfram með liðinu á næsta tímabili.

Zlatan Ibrahimovic kom til Manchester United í sumar og gerði þá eins árs samning með möguleikanum á því að framlengja hann um eitt ár. Nú er orðið ljóst að Zlatan Ibrahimovic mun spila með Manchester United tímabilið 2017-18.

Zlatan Ibrahimovic var í banni í síðasta leik en hefur skorað 8 mörk í 17 leikjum í öllum keppnum það sem af er þessu fyrsta tímabili sínu á Old Trafford.

„Við ætlum að nýta okkur möguleikann á því að framlengja samninginn hans um eitt ár. Eftir það getur hann gert hvað sem honum sýnist,“ sagði Jose Mourinho á blaðamannafundi. BBC segir frá.

„Ég er í góðu formi, ferskur og líður vel. Ef mér líður áfram svona vel þá verð ég hérna á næsta ári líka,“ sagði Zlatan Ibrahimovic.

Zlatan Ibrahimovic getur einbeitt sér að sínu félagsliði en hann setti landsliðsskóna upp á hillu eftir EM í Frakklandi síðasta sumar.

Hann hefur unnið titil á öllum tímabilum sínum frá árinu 2001 þar af alls þrettán meistaratitla. Zlatan vann þessa titla með Ajax, Juventus, Inter Milan, Barcelona, AC Milan og Paris Saint Germain þar sem hann varð fjórum sinnum franskur meistari.


Tengdar fréttir

Leikmenn United þeir launahæstu

Þrátt fyrir vandræði Manchester United er ekkert knattspyrnufélag í heiminum sem borgar leikmönnum sínum hærri laun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×