Skoðun

Opið bréf til stjórnmálaflokka og alþingismanna frá grunnskólakennurum á Suðurnesjum

Grunnskólakennarar á Suðurnesjum skrifar
Álag á starfsmenn grunnskólanna hefur aukist mikið síðustu misseri og laun grunnskólakennara eru ekki samkeppnishæf. Grunnskólakennarar hafa tvívegis fellt kjarasamninga og eru orðnir þreyttir á að þurfa að leggja meira á sig í kjarabaráttu en aðrir hópar. Þeir leita nú í önnur störf og útlit er fyrir mikinn kennaraskort á næstu árum að óbreyttu.

Íslendingar hafa þá hugsjón að öll börn eigi að hafa jafna möguleika í þjóðfélaginu og er skólakerfinu ætlað öðru fremur að tryggja að svo geti orðið. Fari eins og nú horfir að grunnskólakennurum bjóðist ekki bætt kjör, blasir við fjölgun ófaglærðra við kennslu í grunnskólunum því menntaðir kennarar flykkjast í önnur og betur launuð störf. Hætt er við því að mikill munur verði á gæðum þeirrar kennslu og þjónustu sem nemendur njóta eftir því hvort menntaðir sérfræðingar sjái um þessi störf eður ei. Það er óumflýjanlegt að námsárangur grunnskólanema gjaldi fyrir flótta kennara úr stéttinni.

Fyrir kosningar voru stjórnmálaflokkunum sendar fyrirspurnir um álit þeirra á kjarabaráttu kennara. Flestir flokkarnir sögðu stefnu sína vera þá að bæta tekjustofna sveitarfélaganna svo þau gætu komið til móts við launakröfur grunnskólakennara. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur haldið því fram að sveitarfélögin hafi ekki fjármagn til að borga grunnskólakennurunum hærri laun. Sambandið leggur áherslu á að semja við samninganefnd FG innan SALEK samkomulagsins sem Kennarasambandið er ekki aðili að. Kennarar hafa tvisvar fellt kjarasamning sem tekur mið af SALEK samningnum.

Við vekjum sérstaklega athygli á að SALEK samningurinn gerir ráð fyrir að kjör launþega á almennum markaði og þeirra sem eru í opinberu starfi verði jöfnuð. SALEK samningurinn gerir ráð fyrir því að allir aðilar á vinnumarkaði fái sömu prósentuhækkanir á ákveðnu tímabili en leiðréttir ekki laun kennara til þess að þau verði samkeppnishæf við laun á almennum vinnumarkaði. Hinsvegar leiðir samningurinn til þess að óbreyttu að lífeyrisréttindi okkar sem störfum hjá ríki og sveitarfélögum verði skert miðað við það sem nú er. Skárri eftirlaun hafa bætt svolítið upp lág laun kennara svo skerðing þeirra bætir ekki ástandið sem nú er að myndast.

Almennt er viðurkennt að eðlileg launakrafa okkar grunnskólakennara sé sömu laun og hjá viðmiðunarstéttum. Liggur beinast við að miða við sömu kjör, laun og aukagreiðslur eins og hjá framhaldsskólakennurum og hópum á almennum markaði með sambærilega menntun. Menntunarkröfur og starfsskyldur grunnskóla- og framhaldsskólakennara eru þær sömu en þó fá þeir síðarnefndu meðal annars umtalsvert hærri laun, þeir hafa lægri kennsluskyldu og sveigjanlegri vinnuramma. Muninn á kjörum grunnskólakennara og framhaldsskólakennara má rekja til þess að sveitarfélögin reka grunnskólana og ríkið framhaldsskólana. Sveitarfélögin, líkt og við grunnskólakennarar, hljóta að krefjast þess að ríkið styrki tekjustofna sveitarfélaganna til að þau geti boðið okkur grunnskólakennurum sambærileg kjör og viðmiðunarhópar fá eða að ríkið taki aftur við rekstri grunnskólanna af sveitarfélögunum.

Við bendum alþingismönnum á að í síðustu kjarasamningum FG og sveitarfélaganna var samið um að vinnu kennara skyldi skipt í þrjá flokka. A-hlutinn er kennsluskyldan, undirbúningur og úrvinnsla kennslu, B-hlutinn eru þau störf sem teljast nauðsynleg og rúmast innan vinnuramma. Öll aukavinna umfram fasta grunnþætti t.d. umfangsmikil námsskrárvinna, innleiðing spjaldtölvanna, félagsstörf nemenda og fleira sem ekki rúmast innan vinnuramma átti að greiða úr C-hluta sem yfirvinnugreiðslu eða koma til lækkunar á kennsluskyldu. Grunnskólar fengu lítið sem ekkert fjármagn frá sveitarfélögunum í C-hlutann á sama tíma og Menntamálaráðuneytið lagði fyrir grunnskólana að taka upp nýja og flókna aðalnámskrá.

Innleiðing nýrrar aðalnámskrár og tæknivæðing grunnskólanna hefur aukið til muna álag á kennarana og eðlilegt að þeir fái greitt sérstaklega fyrir þessa vinnu. Þá er vert að geta þess að með nýrri aðalnámskrá fylgdu takmarkaðar leiðbeiningar varðandi innleiðingu hennar frá ráðuneytinu og virðist sem hver grunnskóli þurfi að finna út úr því hvernig þetta skuli framkvæmt. Hefur þetta reynst mjög flókið og á það sérstaklega við um hið nýja námsmat. Á sama tíma hafa orðið miklar breytingar á skipulagi náms á framhaldsskólastigi en þar fylgdi fjármagn til að greiða kennurum fyrir þá aukavinnu sem ný námskrá felur í sér.

 

Við áréttum einnig að á undanförnum árum hefur í mörgum skólum átt sér stað mikið átak til að auka gæði skólastarfs sem birtist í bættu læsi, bættum árangri í alþjóðlegum rannsóknum (t.d. PISA) og tilraunum til að auka vellíðan og jákvætt viðhorf nemendanna til náms. Ný læsisstefna í grunnskóla, vinna við uppeldisstefnu (PBS og fleira), aukin samvinna við foreldra, fleiri prófanir og úrvinnsla úr þeim, margskonar nýjungar í kennsluháttum og mikið af nýju námsefni hafa bæst við það sem fyrir var. Á sama tíma hafa margir skólar farið út í miklar skipulagsbreytingar og aðhald sem m.a. hefur leitt til þess að færri stjórnendur eru í mörgum skólanna. Er þá ónefnt innleiðing skóla án aðgreiningar sem hefur haft í för með sér gríðarlegt auka álag á kennara án þess að nægjanlegt fjármagn hafi fylgt. Allt þetta hefur leitt til aukins umfangs kennarastarfsins sem aftur hefur leitt til aukins álags.

Það er því skýlaus krafa grunnskólakennara að ný ríkisstjórn og Alþingi styrki tekjustofna sveitarfélaganna til að grunnskólakennurum bjóðist sömu launakjör og framhaldsskólakennurum og öðrum viðmiðunarhópum. Það er einnig krafa grunnskólakennara að þegar ríkið bætir auknum verkefnum á skólana og kennarana þá fylgi því ávallt nægjanlegt fé til að greiða megi fyrir þá aukavinnu sem fylgir slíkum breytingum.

Við teljum að bæta þurfi kjör allra kennara umtalsvert og að gætt verði betur að því að kennarar, ekki síst við grunnskólana, dragist ekki aftur úr í launum eins og ítrekað hefur gerst. Þetta mætti tryggja með því að tengja launakjör okkar við það sem best gerist hjá öðrum sbr. nýfallinn úrskurð kjararáðs. Ef bjarga á málum eins og staðan er í dag þurfa grunnskólakennarar verulegar launahækkanir og kjarabætur því grunnskólakerfið, eins og það leggur sig, er í húfi.

Við skorum á alla stjórnmálaflokkana á Íslandi að sýna í verki að þeir vilji vandað og árangursríkt skólastarf í landinu, að þeir skilji að það verður ekki á meðan launakjör grunnskólakennara eru eins og nú er raunin og að þeir styðji okkur kennara í baráttu okkar fyrir kjörum sem hæfa okkar menntun og ábyrgð í samfélaginu.

Virðingarfyllst,

Grunnskólakennarar á Suðurnesjum

Opið bréf tekið fyrir á baráttufundi grunnskólakennara á Suðurnesjum í Andrews theatre í Reykjanesbæ þann 22. nóvember 2016.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×