Skoðun

13:30

Birgir Örn Guðjónsson skrifar
Grunnskólakennarar eru í kjarabaráttu. Það eru að vísu svo gamlar og endurteknar fréttir að það er næstum því hlægilegt. Heilu kynslóðirnar þekkja ekki annan veruleika en þann þar sem kennarar eru í verkföllum og í baráttu fyrir bættum kjörum. Það er ekkert skrýtið að kennararnir sjálfir séu orðnir rétt rúmlega langþreyttir og margir að gefast upp. Í mótmælaskyni ætla grunnskólakennarar að ganga út úr skólunum klukkan 13:30 í dag. Mér finnst eiginlega stór furðulegt að þeir ætli að snúa aftur til vinnu á morgun.

Konan mín er grunnskólakennari. Ég veit líka að hún er vinsæll og góður kennari. Ég verð samt að hryggja nemendur hennar og foreldra þeirra með því að ég hef hvatt hana til að hætta. Ég hef hvatt hana til að finna sér starf þar sem hún er metin að verðleikum. Þegar öllu er á botninn hvolft er kennarastarfið nefnilega bara vinna. Það er ekki hægt að krefjast þess að kennarar fórni hæfileikum sínum og fjárhagslegri framtíð á altari hugsjónarinnar.

Það er pottþétt oft skemmtilegt og gefandi að vera kennari en það er líka ótrúlega slítandi og þreytandi. Og það sem mestu skiptir, það fylgir því gífurleg ábyrgð að vera grunnskólakennari. Það skiptir okkur foreldra óendanlega miklu máli að þeir kennarar sem sjá um menntun barnanna okkar sinni sínu starfi vel og af fagmennsku. Við höfum ákveðið að grunnskólakennarar mennti sig í fimm ár í háskóla. Við viljum að það sé vandað til verka þegar kemur að kennslu og við viljum að besta fólkið veljist í þessi störf. Við höfum engan áhuga á að gambla með börnin okkar, það dýrmætasta sem við eigum.

Hvernig stendur þá á því að samfélagið hefur ákveðið að verðmeta kennarastarfið sem láglaunastarf? Hvað klikkaði hjá okkur? Samfélag sem gerir slíkt er ekki gott samfélag. Það er rotið og skemmt og á sér litla framtíð. Nú er samt tækifærið til að gera eitthvað í málunum. Nú höfum við tækifæri til að rífa okkur upp á rassgatinu og hætta þessari vitleysu.

Það þarf þjóðarsátt um sanngjörn laun fyrir grunnskólakennara. Það þarf þjóðarsátt um að falla ekki í gamla afbrýðisemispyttinn sem hamlar því endalaust að hægt sé að leiðrétta svona samfélagsvillu. Þarna þarf einfaldlega að verðmeta starfið upp á nýtt. Það er lífsnauðsynlegt ef við ætlum ekki að ganga að menntakerfinu algjörlega dauðu. Við erum að tala um framtíð barnanna okkar. Hvernig verðleggjum við hana? Hún hefur verið sett í ruslflokk allt of lengi. Það er kominn tími á breytingar. Ég styð grunnskólakennara í sinni kjarabaráttu.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×