Fótbolti

Sjáið Zlatan skoða nýju styttuna af sér | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. Vísir/Getty
Zlatan Ibrahimovic var í gær kosinn besti knattspyrnumaður Svíþjóðar tíunda árið í röð. Verðlaunin komu ekki mikið á óvart en Zlatan fékk óvæntan bónus á athöfninni.

Zlatan fékk nefnilega ekki bara Gullboltann að þessu sinni eins og í öll hin níu skiptin heldur var einnig tilkynnt um það að hann fái styttu af sér fyrir utan þjóðarleikvang Svía.

Styttan af Zlatan Ibrahimovic verður fyrir utan Friends Arena í Stokkhólmi. Það er listamaðurinn Peter Linde sem gerir styttuna af Zlatan.

Íslendingar eru með styttu af Alberti Guðmundssyni fyrir framan Laugardalsvöllinn en Albert var fyrsti atvinnumaður Íslands í knattspyrnu.

Sænska knattspyrnusambandið setti saman myndband af því þegar Zlatan Ibrahimovic fékk að skoða stöðuna á styttunni af sér inn á vinnustofu Peter Linde.

„Eftir alla þessa vinnu með landsliðnu í fimmtán ár og með félagsliðinu í tuttugu ár þá líður mér núna eins og að fólk kunna almennilega að meta það,“ sagði Zlatan Ibrahimovic.

„Strákurinn frá Rosengard fær styttu af sér í höfuðborginni. Miklar þakkir til allra. Þetta er risastórt fyrr mig. Flestir fá ekki styttu af sér fyrr en þeir eru dánir,“ sagði Zlatan Ibrahimovic.

Zlatan Ibrahimovic skoraði 62 mörk í 116 landsleikjum með Svíum en hann setti landsliðsskóna upp á hillu eftir EM í Frakklandi í sumar.

Það er hægt að sjá myndband af Zlatan að skoða nýju styttuna af sér hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×