Innlent

Fjögurra barna faðir vann milljónir í lottó: „Er þetta virkilega rétt?“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ekki amalegt að vinna 22,6 milljónir króna.
Ekki amalegt að vinna 22,6 milljónir króna. vísir/valli
Í morgun kom fjögurra barna faðir af höfuðborgarsvæðinu á skrifstofu Getspár í Laugardal en hann var vægast sagt ánægður enda vann hann 22,6 milljónir í lottó á laugardaginn. Tveir voru með allar tölur réttar í drættinum þá en þessi vinningshafi hafði keypt miðann sinn á lotto.is.

Í tilkynningu frá Getspá er haft eftir manninum að vinningurinn gæti ekki komið á betri tíma þar sem fjölskyldan er stór, jólin eru að koma og húsnæði fjölskyldunnar að springa utan af henni. Í tilkynningunni kemur fram að vinningshafinn hafi veitt því athygli strax á laugardagskvöldið að hann væri með allar tölur réttar.

„Hann öskraði upp yfir sig og kallaði „er þetta rétt, er þetta rétt, er þetta virkilega rétt?“  Kona mannsins kom hlaupandi til hans þar sem hún hélt að maður sinn væri að fá hjartaáfall en sem betur fer var ekki svo heldur bara gleðiöskur frá hinum lukkulega lottóvinningshafa.  Starfsfólk Íslenskrar getspár óskar þessum heppna vinningshafa innilega til hamingju,“ segir í tilkynningu Getspár.

Þar kemur jafnframt fram að hinn vinningshafinn frá því á laugardaginn sé ekki kominn fram. Miðinn var keyptur hjá N1 í Borgarnesi og biðlar því starfsfólk Getspár til þeirra sem keyptu lottómiða þar um að líta vel á miðann sinn þar sem þar gæti hugsanlega leynst 22,6 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×