Innlent

Líkur á hvítum jólum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Meiri líkur en minni á jólasnjó en spáin breytist frá degi til dags.
Meiri líkur en minni á jólasnjó en spáin breytist frá degi til dags. vísir/vilhelm
Einhverjar líkur eru á hvítum jólum víðast hvar á landinu í ár, að sögn Óla Þórs Árnasonar veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Líkt og staðan er núna eru meiri líkur en minni á jólasnjó en spáin breytist ört þessa dagana.

„Ég hugsa að það verði býsna víða sem það verður einhver snjór á jörðu. En hvort það verði alveg hvítt eða ekki er önnur umræða,“ segir Óli. Fólk getur þó huggað sér við það að útlit er fyrir hæglætisveðri um jólin og Þorláksmessu.

„Það sem hægt er að segja með góðri vissu er að það er ekki útlit fyrir neinu rosalega vondu veðri um jólin, þó gæti það orðið svolítið leiðinlegt við norðurströndina á aðfangadag og jóladag,“ segir hann.

Snjór og hálka éljagangur eru nú um allt vestanvert landið og flestra veðra er von á landinu næstu tvo sólarhringana, en veðurspá næstu daga má sjá hér fyrir neðan.

Miðvikudagur:

Vestlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og víða dálítil él. Frost 2 til 10 stig, kaldast N-lands.

Fimmtudagur:

Suðvestlæg átt, víða 5-13 með éljum, en yfirleitt þurrt á N- og A-landi. Hiti breytist lítið.

Föstudagur (Þorláksmessa):

Suðlæg eða breytileg átt, 3-10 og él sunnan- og vestantil. Vaxandi norðaustanátt með snjókomu suðaustantil seint um kvöldið. Frost 0 til 8 stig.

Laugardagur (aðfangadagur jóla):

Útlit fyrir norðaustanátt með snjókomu eða slyddu fyrir norðan, en annars vestlæga eða breytilega átt með dálítlum éljum. Hlánar við NA-ströndina, en annars frost.

Sunnudagur (jóladagur):

Breytileg vindátt, úrkomulítið og frost um mest allt land, en líkur á norðaustanátt með snjókomu við NA-ströndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×