Innlent

Lögreglan varar við fölskum vinabeiðnum á Facebook

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vinabeiðnir frá ókunnugum ber að varast.
Vinabeiðnir frá ókunnugum ber að varast. Vísir/GVA
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að nokkuð hafi borið á því undanfarið að fólk hafi fengið falskar vinabeiðnir á Facebook. Tilgangurinn með vinabeiðnunum sé að komast nær fólki og flækja það í lygar sem síðan leiði til svindls. Lögreglan upplýsir um þetta á Facebook síðu sinni.

Falskar vinabeiðnir feli í sér að svindlarinn gefur sér langan tíma í að kynnast fórnarlambinu áður en reynt er að svíkja pening út úr viðkomandi. Þegar sambandi hefur verið komið á og traust ríki á milli aðila þá koma upp ástæður fyrir því að viðkomandi þarf á pening að halda.

Lögreglan bendir á að þessi sambönd geti virkað mjög raunveruleg. Með þessu svindli sé verið að rugla með tilfinningar fólks.

Dæmi séu um það hér á landi að fólk hafi misst milljónir vegna þess að það telur sig vera að bjarga einhverjum í útlöndum.  „Bandarískir hermenn“ hafa sett sig í samband við íslenskar konur auk „ungra erlendra kvenna“ sem hafa sett sig í samband við íslenska karlmenn. Margar sögur séu spunnar til þess að ná til fólks.

Lögreglan biðlar til fólks um að hafa varann á þegar vinabeiðnir á samfélagsmiðlum eru samþykktar komi þær frá aðilum sem það kannast ekki við.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×