Erlent

Varar við því að Idlib geti orðið næsta Aleppo

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessar konur og börn voru á meðal þeirra almennu borgara sem voru fluttir frá Aleppo í dag.
Þessar konur og börn voru á meðal þeirra almennu borgara sem voru fluttir frá Aleppo í dag. vísir/getty
Staffan di Mistura, erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands, segir að borgin Idlib í norðvesturhluta landsins geti orðið næsta Aleppo ef vopnahléi verður ekki komið á í landinu eða komist verði að pólitísku samkomulagi um að binda enda á styrjöldina sem þar hefur geisað.

Augu heimsbyggðarinnar hafa síðustu daga verið á austurhluta Aleppo þar sem sýrlenski stjórnarherinn hefur staðið fyrir linnulausum árásum á uppreisnarmenn og almenna borgara sem voru innilokaðir á svæðum sem voru á valdi uppreisnarmanna.

Snemma í morgun gekk í gildi vopnahlé í Austur-Aleppo og var byrjað að flytja almenna borgara sem og uppreisnarmenn frá borginni. Samkvæmt frétt á vef Guardian hafa yfir 2000 manns verið fluttir frá austurhlutanum í dag og þúsundir til viðbótar munu verða fluttir á næstu dögum en talið er að meira en 1000 manns hafi látist í lokaáhlaupi Sýrlandshers á Aleppo og tugir þúsunda hafa þurft að flýja heimili sín. Borgin öll er nú á valdi stjórnarhersins og er það talinn mikill sigur fyrir forseta landsins, Bashar al-Assad.

di Mistura ræddi við fjölmiðla í kvöld ásamt franska utanríkisráðherranum Jean-Marc Ayrault. Hann sagði að um 50 þúsund manns væru enn inni í austurhluta Aleppo en til þess að tryggja að hlutirnir myndu ganga vel fyrir sig þyrftu Sameinuðu þjóðirnar að fá leyfi til að senda inn fleiri eftirlitsaðila.

40 þúsund eru almennir borgarar sem flytja á til Vestur-Aleppo að sögn di Mistura. Þá eru þeir sem eftir eru um 10 þúsund, og eru það uppreisnarmenn ásamt fjölskyldum. Þeir munu verða fluttir til Idlib.

„Ég veit ekki hvað mun gerast í Idlib en ef það verður ekki vopnahlé eða einhvers konar pólitískt samkomulag þá verður borgin næsta Aleppo,“ sagði di Mistura. 


Tengdar fréttir

Spurt og svarað um Aleppo

Mikið hefur verið fjallað um ófremdarástandið sem ríkir í sýrlensku stórborginni Aleppo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×