Innlent

Þúsundir þurfa aðstoð vegna bágs efnahags

Sveinn Arnarson skrifar
Mæðrastyrksnefnd úthlutar jólamat til fátækra á hverju ári.
Mæðrastyrksnefnd úthlutar jólamat til fátækra á hverju ári. Vísir/Ernir
Ástandið nú í góðærinu er síst betra nú en rétt eftir hrun og margir sem búa við mjög kröpp kjör,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands. Í sama streng tekur Aðalheiður Frantzdóttir, framkvæmdastjóri Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, sem segir leigumarkaðinn fátæktargildru og hægt væri að stemma stigu við fátækt með félagslegu leiguhúsnæði.

„Þeir sem eru allra verst settir nú eru öryrkjar og eldri borgarar. Þetta er fólk sem hefur ekki mikið milli handanna og hefur ekki efni á að halda jól,“ segir Ásgerður Jóna. „Við erum að hjálpa um 700 fjölskyldum og á bak við það eru rúmlega 2.000 einstaklingar í brýnni þörf fyrir hjálp okkar.“

Að mati Fjölskylduhjálpar Íslands er ástandið mun verra en af er látið í dag og uppgangurinn sé ekki hjá öllum.

Fjölskylduhjálp verður með úthlutanir fyrir jólin bæði í Reykjavík og í Reykjanesbæ. Ásgerður segir einstaklingana sem koma til þeirra vera fasta í viðjum fátæktar. „Við skoðum staðgreiðslu og framtöl til að átta okkur á þörfinni. Við erum búin að vera með þetta ferli í mörg ár. Þá sjáum við hverjir þurfa og hverjir þurfa ekki,“ segir Ásgerður.

„Það er góðæri hjá hellingi af fólki, en eftir sitja stórir hópar okkar samfélags,“ segir Aðalheiður Frantzdóttir hjá Mæðrastyrksnefnd. Nefndin hjálpar um fjögur þúsund manns en 1.200 umsóknir hafa borist nefndinni fyrir þessi jól og munu hún hjálpa þeim öllum með bæði matargjöfum og jólagjöfum fyrir börn og annað sem þarf til að halda jólin.

„Nú er ekki mikið um atvinnuleysi en hjá okkur fjölgar námsmönnum og öðrum sem eiga ekki til hnífs og skeiðar vegna leigumarkaðarins á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ásgerður.

„Væri til alvöru félagslegur leigumarkaður gætum við fækkað þeim sem þurfa hjálp hjá okkur um 60 prósent. Einnig eru þeir sem eru fátækir að verða fátækari en áður var – þeir sem til okkar koma.“



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×