Innlent

Reyndi að féfletta eldra fólk með því að saka það um að hafa valdið slysi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að maðurinn hafi nú nýlega haft samband við eldri konu símleiðis og sakað hana um að hafa ekið á barnið sitt á bílaplaninu við Kringluna.
Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að maðurinn hafi nú nýlega haft samband við eldri konu símleiðis og sakað hana um að hafa ekið á barnið sitt á bílaplaninu við Kringluna. vísir/gva
Karlmaður á sextugsaldri var í byrjun mánaðar handtekinn og úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald grunaður um ítrekaðar tilraunir til fjárkúgunar. Maðurinn er sagður hafa reynt að hafa af eldra fólki fé með því að saka það um að hafa valdið slysi.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að maðurinn hafi nú nýlega haft samband við eldri konu símleiðis og sakað hana um að hafa ekið á barnið sitt á bílaplaninu við Kringluna. Barnið hafi fengið gat á höfuðið og að fara hefði þurft með barnið á sjúkrahús. Bauð maðurinn konunni sáttauppgjör og reyndi þannig að féfletta hana.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst trúði konan manninum í upphafi, enda var hún stödd í Kringlunni umræddan dag. Hún hafði samt sem áður samband við lögregluna, sem tilkynnti henni að þetta væri ekki fyrsta slíka tilfellið.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að kæra hafi verið lögð fram á hendur manninum vegna málsins. Þá séu til rannsóknar nokkur tilvik af sama toga á hendur manninum, en meintir brotaþolar eru eldra fólk og/eða fólk í viðkvæmri stöðu.

RÚV greindi frá því í morgun að ein þeirra sem maðurinn reyndi að svindla á hafi greint frá því á jólafundi hjá Oddfellow-hreyfingunni í gærkvöldi.

Málið er að sögn lögreglu nokkuð viðamikið en við húsleit á heimili mannsins var lagt hald á tölvur og síma. Lögregla biður þá sem kunna að hafa upplýsingar um málið að hafa samband símleiðis eða í gegnum netfangið gudmundur.pall@lrh.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×