Enski boltinn

Myndavélamarkið hans Ronaldo það 500. á ferlinum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid, skoraði annað mark sinna manna í 2-0 sigri á Club América frá Mexíkó í undanúrslitum heimsmeistarakeppni félagsliða í Japan í morgun. Markið var heldur betur sögulegt.

Markið sem portúgalska ofurstjarnan skoraði á annarri mínútu í uppbótartíma leiksins var það 500. sem hann hefur skorað á ferlinum fyrir liðin þrjú sem hann hefur spilað með.

Þetta var í fyrsta sinn á ferli Ronaldo sem myndbandsupptaka skar úr um hvort mark hans væri löglegt en verið er að prófa slíka tækni á HM félagsliða eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan.

Ronaldo er nú búinn að skora 377 mörk í 367 leikjum fyrir Real Madrid eða meira en mark í hverjum leik, hann skoraði 118 mörk í 367 leikjum fyrir Manchester United og fimm mörk í 31 leik fyrir Sporting í Lissabon þegar hann var unglingur.

Í heildina eru þetta 500 mörk í félagsliðafótbolta í ekki meira en 689 leikjum. Magnaður árangur hjá þessum ótrúlega leikmanni sem fékk Gullboltann í fjórða sinn á ferlinum í byrjun vikunnar. Hann verður svo líklega kjörinn besti fótboltamaður heims á FIFA-verðlaununum eftir áramót.

Við þessi 500 mörk má svo bæta 68 í viðbót í 136 landsleikjum fyrir Portúgal en Ronaldo upplifði æskudrauminn í París í sumar þegar hann varð Evrópumeistari með portúgalska liðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×