Innlent

Borgin hefur sparað 170 milljónir vegna veðurblíðunnar

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Þetta eru myndir teknar í Skipholti í desember í fyrra og nú í síðustu viku. Munurinn er gríðarlegur.
Þetta eru myndir teknar í Skipholti í desember í fyrra og nú í síðustu viku. Munurinn er gríðarlegur. Vísir/Ernir/Anton Brink
Gríðarlegur munur er á veðri og umhverfi í desember í fyrra og í desember í ár.

Í fyrra var allt á kafi í snjó og bílar komust vart leiðar sinnar, en í ár hefur fólk varla þurft að skafa bílinn á morgnana og ekki er vitað til þess að nokkur hafi fest sig í snjó.



Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins, segir síðasta vetur hafa verið mjög skrýtinn.

„Á þessum tíma fyrir ári síðan var 30-40 sentimetra jafnfallinn snjór hér í marga daga í upphafi desember. Við ströggluðum við að halda borginni opinni og okkur tókst það. Hérna voru 40-50 vélar að moka snjó, sólarhring eftir sólarhring, og það kostaði okkur auðvitað peninga,” segir Hjalti.

En nú sparar borgin peninga þar sem kostnaður vegna helstu liða vetrarþjónustu er í kringum 25-30 prósent af því sem hann var á sama tímabili í fyrra.

Kostnaður var 235 milljónir króna frá ágúst til áramóta í fyrra, en er í kringum 65 milljónir í ár. Kostnaðurinn er alltaf einhver þar sem verktakar fá viðverugjald og starfsfólk er á launum, þó svo að ekki þurfi að moka snjó.

Það þýðir þó ekki að starfsfólkið sitji aðgerðalaust. Það sinnir hálfgerðum vorverkum.

„Við erum að reyta arfa í beðum og sinna gróðrinum með klippingum og slíku. Svo erum við náttúrulega að sópa og hreinsa,” segir Hjalti.

En auðar og þurrar götur hafa líka sína ókosti. Í gær fór svifryksmengun upp úr öllu valdi í Reykjavík enda göturnar skraufaþurrar og algjört logn. Fjölmargir bílar eru á nagladekkjum, en nagladekk slíta malbiki um hundrað sinnum hraðar og mynda drullu á götunum. Svo í þurru og kyrru veðri þyrlast rykið upp þegar bílarnir keyra um göturnar.


Tengdar fréttir

Gróðusetja tré á aðventunni

Skógfræðingur segir hlýindin ekki hafa neikvæð áhrif á gróðurinn, þvert á móti megum við eiga von á gróðursælu vori ef hitinn helst svona áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×