Viðskipti innlent

Paula Gould til liðs við Frumtak Ventures

Atli Ísleifsson skrifar
Paula Gould.
Paula Gould. Mynd/Frumtak
Paula Gould hefur verið ráðin til þess að leiða alþjóðlegt tengsla og markaðsstarf Frumtakssjóðanna og eignasafn þeirra.

Í tilkynningu frá Frumtaki segir að þetta sé nýtt starf sem sé  ætlað auka sýnileika Frumtaks og félaganna í eignasafninu erlendis.

„Paula hefur yfirgripsmikla þekkingu á frumkvöðlafyrirtækjum og hefur unnið með slíkum fyrirtækjum í Bandaríkjunum, Ísrael og Íslandi.  Hún hefur mikla reynslu af viðskiptaþróun, markaðsfærslu og almannatengslum sem hefur nýst fyrirtækjunum afar vel.  Hún fluttist til Íslands 2011 og hefur unnið með mörgun íslenskum sprotafyrirtækjum í hinum ýmsu hlutverkum s.s. stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og markaðsstjóri. Hún hefur einnig verið að ráðleggja frumkvöðlum í hinum ýmsu stuðningsverkefnum hér á landi,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Gould að hún sé hæstánægð með að ganga til liðs við Frumtak Ventures og kveðst hún hlakka til „að vinna með þeim frábæru fyrirtækjum sem eru í eignasafninu og hjálpa þeim að efla alþjóðlegt tengslanet sitt og nýta erlend markaðstækifæri“.

„Frumtak Ventures er umsýsluaðili Frumtakssjóðanna en þeir fjárfesta í vaxtarfyrirtækjum sem komin eru af klakstigi og búa yfir miklum möguleikum til vaxtar og útrásar. Félagið hefur markvisst verið að fjárfesta í erlendum tengslum og unnið með félögunum í eignasafni sínu að því að efla tengsl þeirra við erlenda fjárfestingasjóði auk þess að aðstoða þau við erlent markaðsstarf,“ segir í tilkynningunni.

Í dag eru sjóðirnir hluthafar í eftirtöldum félögum; Activity Stream, AGR Dynamics, Apollo X, Arctic Trucks, Cintamani, Controlant, Data Dwell, Handpoint, Mentor, MainManager, Meniga, Kaptio, Trackwell, Tulipop og Valka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×