Innlent

Erfið færð á landinu öllu: Þyrlan kölluð út

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Af Hellisheiði í kvöld.
Af Hellisheiði í kvöld. Vísir/Henry Birgir
Erfið færð er á landinu öllu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Í kvöld gengur í hvassa suðaustanátt með slyddu eða rigningu á láglendi en snjókomu til fjalla, þar með talið eru Hellisheiði, Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á Hellisheiði í kvöld til þess að aðstoða sjúkraflutningamenn við að koma sjúklingi af heiðinni, en heiðin er ófær. Á heiðinni er bíll við bíl og gengur umferð hægt að sögn viðmælanda.

Í tilkynningu Vegagerðarinnar segir að úrkomusvæði gangi til norðurs yfir Vesturland og Vestfirði með kvöldinu, en eftir miðnætti verður farið að rigna á öllu svæðinu. Það hvessir áfram í nótt og í fyrramálið má búast við suðaustan 18-25 m/s og snörpum vindhviðum víða bæði sunnanlands og vestan.

Í tilkynningunni segir jafnframt að veður fari versnandi á Suðurlandi. Þæfingsfærð sé á Reynisfjalli og austur yfir Mýrdalssand. Víðast hvar sé hálka eða snjóþekja, þótt þæfingur sé á nokkrum vegum í uppsveitum og á útvegum.

Þá segir einnig að vaxandi vindur sé nú á Vesturlandi og að Fróðárheiði sé lokuð vegna óveðurs. Kemur fram að víðast hvar á Vesturlandi sé hálka og sums staðar snjóþekja. Á Bröttubrekku, Heydal sé þæfingsfærð en þungfært á Laxárdalsheiði.

Kemur fram að á Vestfjörðum sé hálka eða snjóþekja á flestum vegum og sums staðar snjóar. Sömuleiðis sé snjóþekja eða hálka bæði á Norður- og Austurlandi en Breiðdalsheiði og Öxi séu ófærar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×