Innlent

Mikið áhyggjuefni að „gangainnlagnir“ hafi tíðkast mjög lengi á Landspítalanum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Embætti landlæknis hefur birt niðurstöður og samantekt á heimasíðu embættisins í kjölfar þess að farið væri í skyndiúttekt á Landspítalanum eftir fjölmiðlaumfjöllun um málefni spítalans um liðna helgi.

Er það mikið áhyggjuefni að mati Embættis landlæknis að „gangainnlagnir“ sjúklinga, sem  eru hluti af venjulegum veruleika á Landspítalanum, sé ástand sem hafi verið viðvarandi mjög lengi og það jafnvel í áratugi.

Birgir Jakobsson, landlæknir, fór í úttektina mánudaginn 19. desember ásamt tveimur fulltrúum embættisins. Í samantektinni sem birt hefur verið kemur fram að miðað við þau gögn sem aflað var sé ástandið nú og því sem lýst var í sjónvarpsfréttum RÚV „ekki mikið frábrugðið því sem verið hefur um langt skeið á spítalanum. Það breytir því hins vegar ekki að það er afar slæmt að sjúklingar sem þurfa á sjúkrahúsþjónustu að halda liggi á göngum eða setustofum.“

Í úttektinni var farið á sex legudeildir Landspítalans við Hringbraut. Var rætt við deildarstjóra á flestum deildunum sem og starfsfólk. Á deildunum eru 116 legurými en á mánudaginn lágu 122 sjúklingar á deildunum. Því voru sex sjúklingar á gangi eða í öðrum rýmum en sjúklingar eru ekki lagðir í slík rými nema að undangengnu nákvæmu mati á því hvort að sjúklingurinn þoli slíkt.  

Hluti af skýringunni á því hvers vegna þröngt er um sjúklinga um helgar er sú að þá útskrifast mun færri af spítalanum en á virkum dögum. Innskriftir eru reyndar einnig færri á laugardögum og sunnudögum en á virkum dögum „sem bendir til minni starfsemi um helgar á þessum deildum,“ að því er segir á vef landlæknis. Þá er annar hluti skýringarinnar langur biðtími eftir öðrum úrræðum fyrir sjúklinga sem lokið hafa meðferð á Landspítalanum.

Samantekt Embættis landlæknis lýkur á þessum orðum:

„Flestir viðmælendur í eftirlitsheimsókninni töluðu um að „gangainnlagnir“ væru hluti af venjulegum veruleika á spítalanum og er það mikið áhyggjuefni að mati Embætti landlæknis að það ástand hefur verið viðvarandi mjög lengi, jafnvel áratugi.

Ljóst er að margir samverkandi þættir voru þess valdandi að það ástand skapaðist sem lýst var í sjónvarpinu að kvöldi 18. desember. Lykilþáttur í því að leysa þann vanda er bygging nýrrar aðstöðu fyrir starfsemi LSH.“


Tengdar fréttir

Fjöldi bygginga LSH myglu að bráð

Landspítalinn segir ekki nægilega mikið gætt að endurbyggingu húsnæðis spítalans sem liggi undir skemmdum vegna raka og myglu. Að mati framkvæmdastjóra rekstrarsviðs vanti upp á að geta tekið á málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×