Viðskipti innlent

Systrasamlaginu á Seltjarnarnesi verður lokað: „Okkur finnst þetta mjög dapurlegt“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
„Þegar maður getur ekki horft til framtíðar á nesinu þá verður maður að gera eitthvað í málunum, því miður,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir, annar eigandi Systrasamlagsins á Seltjarnarnesi sem er bæði lítil verslun og kaffihús í skúr á lóðinni við Neslaugina.

Guðrún og systir hennar, Jóhanna Kristjánsdóttir, opnuðu Systrasamlagið í júní 2013 en þær eru nú að hætta rekstri á nesinu og flytja verslunina niður í miðbæ Reykjavíkur á Óðinsgötu 1. Ástæðan er sú að Seltjarnarnesbær á lóðina sem skúrinn stendur á og vill ekki gera leigusamning við eiganda skúrsins til lengri tíma en eins árs í senn.

Seltirningar og fastakúnnar ósáttir við lokunina

Mikil umræða hefur skapast um lokun Systrasamlagsins í íbúagrúppu Seltirninga á Facebook og er það ekki ofsögum sagt að margir íbúar eru afar ósáttir við að verslunin þurfi að loka. Þannig segja margir að það sé „sorglegt“ og „glatað“ að systurnar þurfi að loka og Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi í minnihluta bæjarstjórnar segir:

 

„Ótrúlega sorglegt mál. Minni á að þetta er aðeins á herðum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Við í minnihlutanum höfum beitt okkur fyrir að standa vörð um lítil fyrirtæki á Nesinu og reynt að fá meirihlutann til að gera eðlilegan samning við eiganda húsnæðisins. Glatað hvað meirihluti með aðeins 52,6% meirihluta getur beitt miklu valdi.“

Þá tjáir fjölmiðlakonan Eva María Jónsdóttir sig einnig í umræðunum og segir:

„Vér fastakúnnar verðum að stöðva þessa vitleysu. Þetta þarf ekki að fara svona. Ég mun ekki sætta mig við að skipta þessu sjálfsprottna heilsuhofi út fyrir sjoppu eða alþjóðlega veitingakeðju.“

Ekki hægt að byggja upp rekstur þegar rekstrargrundvöllur er ekki tryggður

Guðrún segir að þeim systrum hafi verið vel tekið ekki bara af Seltirningum heldur einnig af Vesturbæingum og að fólk hafi í raun komið hvaðanæva að til versla hjá þeim.

Að sögn Guðrúnar stefndu þær Jóhanna á að byggja reksturinn upp á nesinu enda hafa þær sterkar rætur þar; þær eru ekki bara þaðan heldur einnig foreldrar þeirra, ömmur, afar, langömmur og langafar. Það sé hins vegar ekki hægt að byggja upp rekstur þegar ekki er hægt að tryggja rekstrargrundvöll til lengri tíma en frá ári til árs.

„Við þurftum auðvitað aðeins að hugsa málið en í stað þess að loka alveg þá kom upp í hendurnar á okkur æðislegt húsnæði og við erum með svo margar hugmyndir að þetta húsnæði á nesinu var kannski að verða of lítið fyrir okkur,“ segir Guðrún.

„Ógæfulegt fyrir meirihlutann í bæjarstjórn“

Systurnar stefna á að loka á Seltjarnarnesi og opna á nýjum stað í upphafi nýs árs, nálægt mánaðamótunum janúar/febrúar. Guðrún segir að það séu blendnar tilfinningar að fara af nesinu og að þær muni sakna Seltirninga. Hún gagnrýnir stefnu bæjaryfirvalda þegar kemur að rekstri smærri fyrirtækja á Seltjarnarnesi.

„Okkur finnst þetta mjög dapurlegt en ég hef stundum hugsað það, vegna þess að þau hafa ekki verið neitt sérstaklega skýr í þessum málum, hvorki við okkur né bæjarbúa, hvort að Seltjarnarnes sé kannski of lítill bær til að vera með eigin bæjarstjórn, hvort það ætti bara að fara að sameina þetta öðru sveitarfélagi. En já, mér finnst þetta ógæfulegt fyrir meirihlutann í bæjarstjórn að hafa ekki tekið skýrari afstöðu til smáfyrirtækja sem vilja vera hér á nesinu,“ segir Guðrún og bætir við:

„Mér finnst þetta vera pínulítið eins og Davíð og Golíat. Maður hefur ekkert í pólitíkina og þá þarf maður bara að vera skynsamur, finna einhverjar aðrar glufur og halda áfram.“

Í viðtali við Fréttatímann segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, að vegna samþykktar frá árinu 2007 um að gera bílakjallara á þessum stað hefur bærinn ekki viljað leigja lóðina út nema til eins árs í senn eftir að langtímaleigusamningur eiganda skúrsins rann út árið 2014.

Hún segir þó ekkert ákveðið hvort eða hvenær eigi að ráðast í þær framkvæmdir og segir að málið sé að öðru leyti á milli Systrasamlagsins og húseiganda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×