Innlent

Foreldrar eru alltof lengi að ganga frá

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Krakkarnir níu eru í 6. bekk í Breiðholtsskóla sem þau segja að sé langbesti skólinn. Þeim líði vel þó þau kvarti undan því að skólastarfið byrji alltof snemma.
Krakkarnir níu eru í 6. bekk í Breiðholtsskóla sem þau segja að sé langbesti skólinn. Þeim líði vel þó þau kvarti undan því að skólastarfið byrji alltof snemma. Vísir/Stefán
Jólaballi miðstigsins í Breiðholtsskóla er nýlokið þegar Fréttablaðið stígur inn. Emmsjé Gauti er spilaður og krakkarnir dansa og syngja með. Níu börn koma í stofu 38 eftir ballið og eru í sínu fínasta pússi. Þau hlakka öll mikið til jólanna, eru mjög spennt að fara í jólafrí og ætla öll að hafa það notalegt um jólahátíðina.

„Ég ætla að taka því rólega og horfa á jólamyndir, allavega Home Alone,“ segir Róbert Breki og Sigurður Ríkharð tekur undir það. Sara María ætlar að borða piparkökur, horfa á sjónvarpið og opna pakkana. „Ég ætla að slaka á og vonandi verður kominn nægur snjór til að gera snjókarl. Svo ætla ég að baka smákökur. Mér finnst mjög gaman að baka, segir Sóley. Mariane Heluisa ætlar að hafa það kósí um hátíðirnar, baka smákökur, og horfa á uppáhaldsjólamyndina sína, Hvernig Trölli stal jólunum.

Halldóra Valdís ætlar að nýta fríið og vinna upp svefn. „Ég ætla að sofa, horfa á jólamyndir á Netflix og baka smákökur. Ég þarf oft að vakna svo snemma, því skólinn byrjar svo snemma, að ég ætla að nýta fríið til að sofa.“ Rakel Dögg er í gipsi á annarri hendinni og vonast til að losna við það milli jóla og nýárs. „Ég ætla líka í bíó og við pabbi ætlum að baka piparkökuhús. Síðan vona ég að ég geti farið á sleða.“

Alicia Katrín ætlar að sjá nýju Harry Potter-myndina og fara á Selfoss að hitta stórfjölskylduna. „Vonandi getum við farið út á sleða og sofið út.“ Steinunn Mardís segist einnig ætla í bíó en líka að skreyta piparkökur. „Ég ætla líka að lesa bók og fara í jólaboð.“

Engin matarlyst fyrir spenningi

Spurð um jólamatinn segir hún yfirleitt hamborgarhrygg á boðstólum með heimalöguðum ís. Steinunn Mardís, Rakel Dögg, Halldóra ­Valdís, Sóley og Sigurður Ríkharð fá öll hrygginn góða. „Það er möndlugrautur í eftirrétt hjá mér,“ segir Steinunn Mardís. „Pabbi hefur alltaf búið hann til en hann leyfði mömmu að gera hann síðast. Ég veit ekki hvort þeirra gerir grautinn núna,“ bætir hún við.

„Ég er ekki með neina matarlyst því ég er svo spennt yfir pökkunum. Ég borða því yfirleitt bara kartöflur í svona karamellu. Í eftirrétt er svo heimatilbúinn vanilluís sem mamma gerir,“ segir Rakel Dögg.

Halldóra Valdís vill fara að prófa eitthvað nýtt og fer ekkert leynt með það: „Það er alltaf hamborgarhryggur um hver einustu jól. Ef ég á að vera hreinskilin þá er ég eiginlega komin með leiða á honum. Ég vil fara að prófa eitthvað nýtt. Ég á reyndar eftir að segja mömmu og pabba það reyndar. Þau lesa það bara hér,“ segir hún og hlær.

Róbert Breki er með allt á hreinu um hvað verður í matinn. „Það verður annaðhvort önd eða kalkúnn með hvítlaukskartöflum. Í eftirrétt gera mamma og pabbi vanillubúðing með púðursykri ofan á og svo er hann brenndur. Það er ofboðslega gott. Mamma og pabbi eru snillingar í eldhúsinu, þau eru samt ekki kokkar.“

Hjá Mariane Heluisa verður kalkúnn.­ „Í eftirrétt kemur amma með heimatilbúinn mintuís og ég og mamma búum til oreo-búðing. Amma mín er samt ekki úr Breiðholti heldur býr hún í Grafarholti.“ Hjá Aliciu Katrínu er kjötsúpa og ís í eftirrétt og ef Sóley verður hjá pabba sínum verður boðið upp á hangikjöt.

Sara María var ekki viss um hvar hún yrði um jólin og maturinn færi eftir því. „Ef ég er hjá mömmu þá er annaðhvort lamb eða rjúpa og heimatilbúinn ís. Ef ég verð í Færeyjum þá er önd. Við höldum stundum jól þar því ég á fjölskyldu þar og þar er borðaður möndlugrautur í eftirrétt.“

Er í lögum að vera svona lengi?

Krakkarnir eru sammála um að tíminn sem foreldrar þeirra setja í að ganga frá eftir matinn sé of langur. Maturinn sé góður og allt það en þau langar að fá að opna pakkana og það helst strax. „Eru einhver lög sem segja að foreldrar verði að vera allavega korter að ganga frá?“ spyr Róbert Breki hissa. Hin taka undir. „Ég ýtti mömmu frá í fyrra og vaskaði upp fyrir hana og var helmingi fljótari en hún. Mamma var bara að hlusta á tónlist og taka sér pásu og dilla sér,“ segir Mariane Heluisa. „Mamma þarf alltaf að lesa eitthvað áður, stundum heila bók. Ég verð alltaf ógeðslega pirraður því mig langar bara að opna pakkana strax,“ segir Sigurður Ríkharð. „Einu sinni kallaði mamma í mig þegar ég sat frammi að bíða eftir að fá að opna: Bíddu aðeins, ég ætla að fá mér kaffisopa með ömmu þinni,“ segir Róbert Breki. „Pabbi var einu sinni búinn að vera svo lengi að ganga frá og ég var orðin mjög pirruð þannig að ég vaskaði allt upp,“ segir Rakel Dögg. „Það er eins og foreldrum sé drullusama um að krakkarnir vilji opna pakkana,“ segir Sigurður. Halldóra Valdís bendir á að sínir foreldrar njóti þess að vaska upp í staðinn fyrir að setja í uppþvottavélina en það sé ekki vinsælt meðal barnanna.

Það er ljóst að biðin lengist enn frekar því það þarf að taka myndir og setja á Facebook. „Við erum þrjár systur og mamma er alltaf að setja myndir á Facebook og það er svo erfitt því það er alltaf einhver með skrýtinn svip,“ bendir Sóley á. Steinunn Mardís er búin að kokka upp ráð: „Ég ætla að sjá um að ganga frá þessi jól. Ég ætla að setja plastfilmu yfir diskana því þá þarf ekkert að vaska upp. Þá bara tek ég plastfilmuna af diskunum og set þá beint upp í skáp. Þá styttist biðin.“

Hluti af jólunum að rífast

Til að koma sér í jólaskap hlusta börnin á jólatónlist og horfa á jólamyndir. Einnig er metingur um hver fær að setja flottasta jólaskrautið á jólatréð. „Það endar stundum með því að systir mín fer að gráta því við rífumst yfir hvor á að setja stjörnuna,“ segir Halldóra Valdís. „Það er hluti af jólunum að rífast við systur mína um hvor fær að setja besta jólaskrautið á jólatréð,“ segir Sigurður. „Einu sinni fór mamma að hlusta á þungarokk um jólin. Ég held að hljómsveitin heiti Skálmöld. Fyrst fór ég ekkert í jólaskap við það en svo kom það. Ég vona samt að það verði ekki að hefð,“ segir Sóley. Eftir fjöruga og skemmtilega umræðu um jólasveininn kom beiðni um að það yrði ekki birt. „Ég get ekki tekið sénsinn,“ sagði einn ónefndur nemandi. Krakkarnir eru nú komin í jólafrí og vilja fara að komast út. Í raun ljúka þau viðtalinu sjálf og ganga sæl og glöð út í frelsið til fjórða janúar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×