Innlent

300 manns gengu í minningu þeirra sem sviptu sig lífi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Eliza Reid forsetafrú leiddi blysför að Vitanum á Skarfagarði þar sem ástvinum gafst tækifæri til að rita nöfn og kveðjur til þeirra sem hafa svipt sig lífi.
Eliza Reid forsetafrú leiddi blysför að Vitanum á Skarfagarði þar sem ástvinum gafst tækifæri til að rita nöfn og kveðjur til þeirra sem hafa svipt sig lífi. Mynd/Saga Sig
300 manns komu saman í gær, á stysta degi ársins, og minntust þeirra sem sviptu sig lífi. Eliza Reid forsetafrú leiddi blysför að Vitanum á Skarfagarði þar sem ástvinum gafst tækifæri til að rita nöfn og kveðjur til þeirra sem hafa svipt sig lífi. Frú Eliza Reid er verndari Pieta samtakanna, sem stóðu að viðburðinum.

Pieta Ísland voru stofnuð í upphafi ársins og starfa að írskri fyrirmynd, PietaHouse. Þetta er í fyrsta sinn sem Pieta Ísland stendur fyrir göngu á þessum tíma árs en í vor stóðu samtökin fyrir göngunni Úr ljósinu í myrkrið, sem er haldin á sama tíma um allan heim. Þá komu um 300 manns saman í Laugardalnum og gengu mót sólarupprásinni.

 

Mynd/Saga Sig
Samtökin munu á næsta ári opna nýtt úrræði í sjálfsskaða- og sjálfsvígsforvörnum, fyrir einstaklinga í vanda og aðstandendur þeirra. Hafin er formleg söfnun á meðal almennings fyrir Pietahúsi sem mun hýsa starfsemina og bjóða ókeypis þjónustu og eftirfylgd í samstarfi við þá þjónustu sem er fyrir hérlendis. Jafnframt verður staðið að forvarnarfræðslu og eftirfylgd í kjölfar áfalla.

Að sögn Jóhönnu Maríu Eyjólfsdóttur, formanns Pieta samtakanna er þörf fólks fyrir að koma saman og minnast þeirra sem hafa látist á þennan hátt mikil og því hafa samtökin fundið fyrir. 

„Þessi sorg þarfnast viðurkenningar frá samfélaginu og Pieta er að leggja sitt lóð á vogarskálarnar með því að opna umræðuna um sjálfsvíg og fjölda þeirra. Með starfsemi Pietahúss ætlum við að koma einstaklingum til hjálpar fyrr í ferlinu og veita þeim faglega eftirfylgd. Með tilkomu Pietahugmyndafræðinnar erum við sannfærð um að sjálfsvígum mun fækka hérlendis. Nú óskum við eftir liðsinni þjóðarinnar til að koma á fót Pietahúsi og erum að opna söfnunarsíma í þeim tilgangi. Sjálfsvíg snerta nær allar stórfjölskyldur á einn eða annan hátt og þurfum að standa saman að því að koma á fót úrræði sem þessu,“ er haft eftir Jóhönnu í tilkynningu.

Mynd/Saga Sig
Mynd/Saga Sig
Mynd/Saga Sig



Fleiri fréttir

Sjá meira


×