Innlent

Grípa inn í þegar ung börn deila klámefni sín á milli

Snærós Sindradóttir skrifar
Flest börn og unglingar hafa óheftan aðgang að internetinu í gegnum snjallsímann allan sólarhringinn. Í gegnum símann er greiður aðgangur að klámi.
Flest börn og unglingar hafa óheftan aðgang að internetinu í gegnum snjallsímann allan sólarhringinn. Í gegnum símann er greiður aðgangur að klámi. NordicPhotos/GETTY
„Við vitum af því að börn skoða klám. Strákar skoða frekar klám og yngri krakkar eru líklegri til að lenda inni á klámsíðum óvart heldur en eldri krakkarnir,“ segir Guðberg K. Jónsson, verkefnastjóri SAFT, sem er vakningarátak um örugga tölvunotkun barna og unglinga. Í Fréttablaðinu í gær var greint frá því að fjórtán ára börn hefðu þurft að leita sálfræðihjálpar vegna klámfíknar og að börn væru sífellt að verða yngri þegar þau sjá klám í fyrsta skipti.

„Við höfum fengið fyrirspurnir frá foreldrum um hvernig þau geta lokað fyrir efnið. Það er lausnin sem öllum dettur fyrst í hug. En svo höfum við líka fengið beiðni um fræðslu frá skólum og foreldrum barna þar sem er sérstaklega farið yfir þetta. Það yngsta er hjá þriðja og fjórða bekk þar sem krakkar hafa hafa verið að deila hlekkjum á klámefni,“ segir Guðberg.

Guðberg K Jónsson, verkefnastjóri SAFT
SAFT hefur gert kannanir á meðal foreldra og barna en nýjustu niðurstöður slíkrar könnunar eru frá 2013. Athygli vekur að í niðurstöðum könnunarinnar segja tæp tíu prósent foreldra að barn þeirra hafi séð klám á síðastliðnum tólf mánuðum. Í sömu könnun sögðust 29 prósent barna hafa séð klámefni á síðustu tólf mánuðum. Aukin notkun snjallsíma hjá börnum gæti haft enn frekari áhrif á þessar tölur þegar nýjar niðurstöður verða kynntar.

Guðberg segir að hægt sé að nota ýmis forrit til að koma í veg fyrir að börn rambi óvart á klámsíður. „En unglingar munu finna leiðir fram hjá þessum vörnum. Það eru til leiðbeiningar á netinu um það hvernig farið er fram hjá þessu. Ég held meira að segja að þessar leiðbeiningar séu til á íslensku.“

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans
Hann segir að fræðslan skipti sköpum frekar en að loka á aðgengi að síðunum. „Börn þurfa snemma að vera meðvituð um að flest af því klámefni sem þau rekast á á netinu er ólíklega að endurspegla raunverulegt kynlíf. Það getur gefið þeim óraunhæfar væntingar um hvað kynlíf er.“

Símafyrirtækin bjóða upp á netvara sem hamlar aðgengi heimilisins að óæskilegu efni. Netvarinn gengur aftur á móti ekki ef símtæki barnanna eru aðeins tengd 4G neti í stað þráðlauss internets. „Fjöldi appa getur hjálpað foreldrum að vernda börnin gegn óæskilegu efni og við mælum með því að foreldrarnir stjórni ferðinni sjálfir. Vörnin er best í tækinu sjálfu og má nefna appið Save Family frá McAfee. Það er frítt. Munum samt að svona varnir eru ekki alltaf hundrað prósent en þær hjálpa,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×