Innlent

Fangi á Litla-Hrauni sýknaður af ákæru um að hafa áreitt samfanga sinn kynferðislega

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mennirnir voru báðir fangar á Litla-Hrauni.
Mennirnir voru báðir fangar á Litla-Hrauni. vísir/anton brink
Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í vikunni 38 ára gamlan karlmann af ákæru um kynferðisbrot gegn manni inni á Litla-Hrauni en mennirnir voru báðir fangar þar þegar meint brot áttu að hafa átt sér stað frá júní til nóvember 2014. Sá sem ákærði átti að hafa brotið gegn kvartaði undan honum og fór málið frá forstöðumanni Litla-Hrauns og þaðan til lögreglu.

Manninum var gefið að sök að hafa ítrekað áreitt samfanga sinn á tímabilinu „með óviðeigandi og kynferðislegum snertingum og kynferðislegu og ósiðlegu orðbragði, meðal annars með því að slá í rassinn á honum og spyrja hvort hann fíli það í rassinn,“ að því er sagði í ákæru.

Bara fíflalæti og Litla-Hrauns djók

Við aðalmeðferð fyrir dómi sagðist maðurinn ekki kannast við þá háttsemi sem lýst er í ákæru en kannaðist þó við að hafa slegið í rassinn á samfanga sínum. Hann sagðist þó ekki muna hvenær það hefði verið en að það hefði bara gerst einu sinni. Þá hafi þetta „bara verið fíflalæti,“ eins og segir í dómnum en þar er jafnframt haft eftir ákærða:

„Þetta sé svona Litla-Hrauns djók hjá þeim. Þeir slái stundum í rassinn á hver öðrum þegar sé fjör hjá þeim. Þetta sé svona húmorinn.“

Maðurinn var svo spurður hvort að samfanga hans hafi þótt þetta vera djók. Hann sagði að það hafi greinilega ekki verið svo en viðkomandi hefði samt ekki sagt neitt slíkt. Engin viðbrögð hafi komið fram.

„Um það hvers vegna hann hafi aðeins slegið einu sinni í rassinn á brotaþola svaraði ákærði því til að það hafi verið vegna þess að brotaþoli hafi greinilega ekki verið að fíla þetta. Hann leggi það hins vegar ekki í vana sinn að vera að slá mikið í rassinn á fólki. Það geti passað að hann og brotaþoli hafi verið á sama gangi á þeim tíma sem greinir í ákæru. Samskipti þeirra hafi verið ágæt framan af þangað til ákærði hafi sagt stopp og ekki viljað lána brotaþola meira af sínu dóti. Eftir það hafi allt orðið verra og brotaþoli meðal annars veist að ákærða. Það hafi verið áður en ákærði  hafi slegið í rassinn á brotaþola,“ segir í dómi héraðsdóms.

Vildi ekki að málið færi svona langt

Maðurinn sem ákærði sló í rassinn á kom líka fyrir dóminn. Hann sagði að hann hefði aldrei viljað að málið færi svona langt. Hann kvaðst hafa verið mjög viðkvæmur á þeim tíma sem meint brot áttu sér stað þar sem hann hafði nýlega misst konu sína.

„Hafi hann þess vegna verið í miklu tilfinningalegu rugli, en hann hafi aldrei viljað að þetta mál færi svona langt. Hann og ákærði séu vinir og þeir vilji ekki láta þetta spilla því. Aðspurður um hvað hafi gerst á milli þeirra á þessum tíma kvaðst brotaþoli eiginlega ekki geta sagt til um það. Hann muni ekkert sérstaklega vel eftir þessu og þetta hafi ekki verið neitt.“

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafði margsinnis beðið verjanda sinn um að málið yrði fellt niður enda séu hann og ákærði fullsáttir. Maðurinn mundi eftir því að ákærði hefði slegið hann í rassinn og að hann hefði kvartað undan því en það hefði ekki verið neitt alvarlegt.

Þá er jafnframt haft eftir manninum í dómnum að „lögreglan hafi bara verið mjög kræf í að hann myndi kæra þetta þó hann hafi ekki viljað það sjálfur. Aðspurður kvaðst brotaþoli telja að klappið á rassinn hafi ekki verið í kynferðislegum tilgangi.“

Hvorki káf né þukl

Ákærði var sýknaður í málinu eins og áður segir meðal annars vegna þess að snertingin var utan klæða og fól hvorki í sér káf né þukl en í ákæru var háttsemin talin varða við 199. grein almennra hegningarlaga þar sem lagt er bann við kynferðislegri áreitni.

Þar segir meðal annars að kynferðisleg áreitni felist meðal annars í því „að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta.“

Í niðurstöðu héraðsdóms segir:

„Hér er um að ræða snertingu utan klæða, en snertingin fól hvorki í sér káf né þukl. Þá liggur fyrir skv. framburði ákærða og brotaþola fyrir dómi, að hvorugur þeirra upplifði snertinguna af kynferðislegum toga. Þrátt fyrir að telja verði upplýst að brotaþoli hafi tekið háttsemi ákærða óstinnt upp, þá þykir ekki hægt að slá því föstu að háttsemi ákærða umrætt sinn hafi falið í sér kynferðislega áreitni í garð brotaþola og verður háttsemi hans því ekki talin fela í sér brot gegn 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Þá var háttsemin heldur ekki talin varða við 209. grein almennra hegningarlaga en ákært var fyrir brot gegn henni til vara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×