Viðskipti innlent

Hlaupa með fyrsta kyndilinn

Hafliði Helgason skrifar
Frá 2010 hafa aðstandendur Crowberry Capital unnið fyrir Nýsköpunarsjóð með góðum árangri. Sjóðurinn hefur ekki fengið framlag frá ríkinu frá þeim tíma. Nýr sjóður vinnur í anda markmiða Nýsköpunarsjóðs sem eru að efla umhverfi sprotafyrirtækja og nýsköpunar. Þær finna fyrir miklum áhuga frumkvöðla og fjárfesta á nýjum sjóði og vonast til að geta stigið fyrstu skrefin í apríl á komandi ári.
Frá 2010 hafa aðstandendur Crowberry Capital unnið fyrir Nýsköpunarsjóð með góðum árangri. Sjóðurinn hefur ekki fengið framlag frá ríkinu frá þeim tíma. Nýr sjóður vinnur í anda markmiða Nýsköpunarsjóðs sem eru að efla umhverfi sprotafyrirtækja og nýsköpunar. Þær finna fyrir miklum áhuga frumkvöðla og fjárfesta á nýjum sjóði og vonast til að geta stigið fyrstu skrefin í apríl á komandi ári. Frétttablaðið Anton
Hekla Arnardóttir, Jenný Ruth Hrafnsdóttir og Helga Valfells yfirgefa skemmtilegt starf til að takast á við nýjar áskoranir í eigin sprotasjóði. FrÉttablaðið Anton
Eitt af því sem skiptir mestu máli fyrir efnahagslega framtíð þjóða er hvernig til tekst við að byggja upp öflug fyrirtæki til framtíðar. Mjór er mikils vísir og ekkert sprettur af engu. Talsverð gerjun er í starfsemi sprotafyrirtækja og áhugi á þeim vaxandi. Það vakti því athygli þegar þrír reynsluboltar úr stjórnendateymi Nýsköpunarsjóðs tilkynntu um stofnun nýs sjóðs sem ætlað er að fjárfesta í sprotafyrirtækjum og nýta þekkingu og reynslu til að koma þeim á legg.

Þetta er allt gert í góðu samkomulagi við Nýsköpunarsjóð. Það vantar fjármagn á þennan stað og við viljum láta á það reyna hvort hægt er að koma öðrum fjárfestum en ríkinu í þetta verkefni með okkur,? segir Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, en hún hefur ásamt fjárfestingarstjórunum Jenný Ruth Hrafnsdóttur og Heklu Arnardóttur stofnað sjóðinn Crowberry Capital til að fjárfesta í nýjum tækifærum í uppbyggingu íslensks atvinnulífs.

Ríki fjárfesta í sjóðum

„Þær segja hlutverk Nýsköpunarsjóðs hafa verið að breytast. Sjóðurinn var stofnaður 1997 og ramminn endurspeglar þann tíma. Lög um sjóðinn hafa ekki mikið breyst frá stofnun en miklar breytingar hafa orðið á umhverfinu. ?Ef við horfum á það sem hefur verið að gerast í löndum sem hafa náð góðum árangri í nýsköpun, eins og Bandaríkin, Bretland, Norðurlöndin og Ísrael, þá hefur aðkoma ríkisins þróast í að vera í gegnum sjóðasjóði, þ.e. ríkið fjárfestir í sjóðum í stað þess að fjárfesta í einstaka fyrirtækjum. Þetta skapar faglega fjarlægð á milli ríkisins og markaðarins,“ segir Helga

Þær segja umhverfi nýsköpunar ekki endilega ríma við embættismannahugsun og nálgun Nýsköpunarsjóðs hafi ekki verið slík. „Við komum allar úr einkageiranum og hugsum fyrst og fremst um nýsköpun. Frá því við komum að sjóðnum hefur ekki komið nýtt fé frá ríkinu heldur hefur sjóðurinn fjármagnað sig á eigin hagnaði. Gallinn við það fyrirkomulag er að það verða talsverðar sveiflur. Sum árin höfum við selt með góðum hagnaði og getum þá fjárfest, en önnur ár hefur ekkert verið selt og möguleikar þar með minni til nýfjárfestinga,“ segir Helga.

Nýsköpun er boðhlaup

Sjóður eins og Crowberry Capital sem safnar loforðum getur skilgreint fjárfestingartímabil og tímabil sölu fjárfestinga býður upp á miklu stöðugra fjármögnunar­umhverfi. Í tilfelli Crowberry Cap­ital er fjárfestingartímabilið fimm ár og líftími sjóðsins sjö til tíu ár.

Frá 2010 þegar þær komu að sjóðnum hefur sjóðurinn fjármagnað sig með eigin árangri. Ríkið hefur ekki lagt til nýja peninga. „Það er stundum talað um að fjárfesting í nýsköpun sé maraþonhlaup, en við lítum svo á að það sé boðhlaup og við ætlum að vera fyrsti kyndilberinn“ segir Helga

Árangur af fjárfestingu kemur missnemma í ljós. Þetta þarf ekki alltaf að taka langan tíma. Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Clara var selt til bandarískra fjárfesta ári eftir að Nýsköpunarsjóður fjárfesti og við söluna þrefaldaðist sú fjárfesting.

Stækka mengið

Þær segja nýja sjóðinn stefna að því að draga fleiri að. ?Við höfum unnið mikið með erlendum fjárfestum og við ætlum okkur að gera það áfram. Við sjáum það fyrir okkur að það þurfi líka að stækka þetta mengi og aðkoma erlendra fjárfesta er þar með liður í því,? segir Helga. Þær bæta því við að ótrúlega vel hafi gengið að fá erlenda fjárfesta inn í verkefni þrátt fyrir gjaldeyrishöft.

Þær segja mikilvægt að ná í öfluga samstarfsaðila í fjárfestingum. „Við förum þvert á greinar og viljum þá gjarnan vinna með sérhæfðum fjárfestum í viðkomandi grein. Sem dæmi er fjárfesting Nýsköpunarsjóðs í Sólfari unnin með finnskum leikjafjárfestum, Mint Solutions fékk til liðs við sig sérhæfða líftæknisjóði og Mentor fékk fjárfesta sem sérhæfa sig í tækni fyrir menntun. Okkar hlutverk væri þá að finna góð fyrirtæki á Íslandi og koma þeim af stað og vinna svo með fjárfestum sem hafa enn stærra tengslanet og sérþekkingu á viðkomandi grein,“ segir Hekla.

Jenný bætir því við að markmið Crowberry Capital samræmist markmiðum ríkisins varðandi uppbyggingu sprotafyrirtækja. „Með tilkomu svona sjóðs þá kemur vogarafl á eignina sem ríkið setur í eignaflokkinn. Ef ríkið setur 500 milljónir í fimm milljarða sjóð, sem annars hefði ekki orðið til, þá er í raun verið að tífalda fjármuni í eignaflokkinn. Hlutverk ríkisins getur svo líka verið að vera til staðar ef það yrði markaðsbrestur og einkasjóðir væru einhverra hluta vegna ekki að fjárfesta í slíkum verkefnum vegna utanaðkomandi aðstæðna.“

Þegar komin loforð

„Á hverjum tíma þarf að vera hæfilegt fjármagn til nýfjárfestinga til að góð fyrirtæki geti komist af stað. Ef of mikið fjármagn er í umferð þá hækkar verðmatið á fyrirtækjum og fjárfestar ná ekki að hagnast. Lykilatriði er að fjárfestar hafi hag af því að leggja fé í nýsköpun, því annars halda þeir ekki áfram að fjárfesta. Umhverfi nýsköpunar þarf að vera hagstætt til lengri tíma, þannig að bæði fjárfestar og frumkvöðlar hagnist,“ segir Hekla.

Frá því að þær sendu út tilkynningu um stofnun sjóðsins segjast þær hafa fengið mikil og jákvæð viðbrögð úr frumkvöðlaheiminum. Þær segja að þótt þær séu rétt að byrja þá finni þær áhuga fjárfesta. „Við erum þegar búnar að fá fjárfestingarloforð, en vinnan við að safna loforðum er nýhafin.“ Þær segja stefnuna setta á fimm milljarða sjóð.

Þær segjast hafa haft mikla ánægju af starfinu hjá Nýsköpunarsjóði, en þeim hafi fundist vanta sjóð eins og þennan og það hafi verið of spennandi til að sleppa því. „Við erum að taka persónulega áhættu með þessu. Við förum úr góðu, skemmtilegu og öruggu starfi til móts við óvissuna, auk þess að leggja fjármuni í verkefnið. Við erum eins og Thelma og Louise, komnar upp í blæjubílinn og ætlum okkur alla leið yfir gilið,“ segir Helga

Teymin skipta miklu

Lífeyrissjóðir víða um heim fjárfesta í þessum eignaflokki enda stuðlar það að áhættudreifingu þeirra. Nýsköpunarfjárfestingar sveiflast ekki endilega í takt við skráð félög. Fjárfestar hér hafa verið að fjárfesta í þessum eignaflokki, bæði stofnanafjárfestar og einstaklingar, þannig að áhuginn er fyrir hendi. „Með þessu erum við að leggja drög að skráðum félögum framtíðarinnar,“ segir Jenný

„Við trúum á þetta og við trúum því að það sé hægt að hagnast á nýsköpun, annars værum við ekki að þessu,? bætir Helga við.

Það tekur tíma að byggja upp góð fyrirtæki, en Hekla bætir því við að það taki líka tíma að búa til góðan sjóð. ?Reynsla og þekking þurfa að byggjast upp og við höfum verið svo heppnar að vinna í þessu frá 2010 og aflað okkur með því verðmætrar reynslu sem við nýtum svo áfram í nýjum sjóði.“

Þær segja að það gildi bæði um fyrirtækin og sjóðinn að samsetning teymisins skipti miklu. ?Við vinnum afar vel saman sem teymi. Þegar ég var ráðin framkvæmdastjóri var ég mjög meðvituð um það að teymi þyrfti að vera sett saman af ólíku fólki með ólíkan bakgrunn. Við erum mjög ólíkar og nálgumst hlutina mjög ólíkt. Við höfum hins vegar sömu gildi sem er mikilvægt, þó bakgrunnur, menntun og persónuleiki sé ólíkur,? segir Helga.

Íslenskt Spotify

Fyrir utan ólík verkefni hafa þær unnið og menntað sig á ólíkum stöðum í heiminum. Þær segja að þetta skipti máli. „Menningarlæsi er mjög mikilvægt þegar verið er að þróa útflutningsfyrirtæki,“ segir Helga. „Það reynir líka á menningarlæsi þegar verið er að fá verkfræðinga og forritara til að vinna með sölu- og markaðsteymum,“ bætir Jenný við.

Þær segjast ekki hafa sett sér nein sérstök markmið um lágmarkshlut í fyrirtækjum. „Aðalatriðið eins og við sjáum það er að fyrirtækin fái næga fjármuni til að geta orðið stór. Við vildum sjá fyrirtæki sambærileg við Spotify koma frá Íslandi. Það þarf verkfæri og stuðning til að svo megi verða. Þar myndu fleiri þurfa að koma að,“ segir Hekla.

Þær segja að það sé vel þekkt að sjóðir úr ýmsum áttum vinni saman að verkefnum. Bandarískir sjóðir vinni til dæmis með evrópskum sjóðum og öfugt. „Við viljum nýta okkur þetta og auka möguleikana.“

Ísland er lítið og sjaldnast möguleiki á mikilli sérhæfingu. Þær segja sjóðinn fyrst og fremst horfa á tækni, en hún geti verið í mismunandi greinum og af mismunandi toga. „Við horfum á góð teymi með djúpa þekkingu á tækni sem við viljum veðja á,“ segir Hekla.

„Það er náttúrlega tæknibylting í gangi og við viljum að Ísland sé hluti af henni. Það eru í raun öll fyrirtæki að verða tæknifyrirtæki í einhverjum skilningi. Tæknin hefur snertifleti við allt. Við höfum reynsluna af því að fjárfesta í og styðja íslensk tæknifyrirtæki og við viljum nýta hana áfram,“ segir Helga. Þær benda á að meðal þess sem sé áhugavert sé heilbrigðistækni þar sem talsverð þekking hefur orðið til í hér á landi.

Raunhæfar hugmyndir

Frumkvöðlar hafa mikla trú á verkefnum sínum og hugmyndum, en fjárfestar horfa utan frá og sjá áhættu sem frumkvöðullinn sér ekki. „Það er reyndar þannig að þegar maður sest í stjórn í fyrirtæki þá fer maður fljótt að fá óbilandi trú á möguleikum þess,“ segir Hekla. Þær segja að þess vegna sé mikilvægt að hluti teymisins standi utan við til að halda fjarlægð. „Ástæðan fyrir því að við fjárfestum í tilteknu fyrirtæki er vegna þess að við höfum trú á því og það er mikilvægt til að geta stutt við það af heilum hug.“

Helga bætir því við að þær hafi hins vegar oft þurft að taka erfiða umræðu við frumkvöðla varðandi verðmat, þar sem hugmyndir geti verið ólíkar. „Við greinum þetta vel og við höfum sagt nei við spennandi tækifærum vegna þess að verðið var of hátt. Við verðum að hafa trú á því að við getum hagnast á þessu.“

Jenný segir að það skipti líka máli fyrir lífslíkur fyrirtækja hvers konar fjárfestir komi inn. „Það er afar mikil­vægt að markmiðin séu þau sömu og frá byrjun liggi fyrir hvernig og í hvað eigi að nýta þá fjármuni sem koma inn í fyrirtækið. Við horfum á hvort frumkvöðlarnir eru með raunhæfar hugmyndir um fjárþörf.“

Tækifærin liggja fyrir

Þær segja að algengast sé að koma með 50-100 milljónir í fyrsta skrefi. „Í litlu teymi sem er að fara af stað er hægt að gera talsvert mikið fyrir þá fjárhæð.“ Þær leggja áherslu á að það skipti máli að stíga skrefin í samræmi við þroska og möguleika fyrirtækisins. Alls ekki megi eins og oft gerist, að fjölga starfsfólki verulega áður en varan hefur sannað sig.

Frumkvöðlaumhverfi og menning sem ýtir undir frumkvöðlastarfsemi skiptir máli, en Ísland kemur vel út þegar horft er til áræðis og hugmynda, en síður þegar horft er á sölu- og markaðsmál og vöxt fyrirtækjanna. Það sé því mikilvægt að aðhald og stuðningur við veikleikana komi með fjárfestunum. Þær segja að sjóður eins og Crowberry Capital geti lagt þar mikið af mörkum.

Þær segja markmiðið vera að fara af stað í apríl. „Við viljum skilja vel við þau verkefni sem við höfum verið að vinna að hér, en við viljum auðvitað byrja eins fljótt og hægt er. Við erum með fjárfestingar­áætlun og það er uppsöfnuð þörf, þannig að við teljum að nú þegar liggi fyrir ákjósanleg tækifæri fyrir svona sjóð.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×