Innlent

Rannsókn á amfetamínsmygli teygir sig til Hollands

Snærós Sindradóttir skrifar
Rannsókn lögreglu beinist meðal annars út fyrir landsteinana, til Hollands.
Rannsókn lögreglu beinist meðal annars út fyrir landsteinana, til Hollands. vísir/ernir
Tveir menn eru enn í gæsluvarðhaldi grunaðir um innflutning á fjórum kílóum af amfetamíni og töluverðu magni stera fyrr í þessum mánuði. Búið er að sleppa þremur öðrum sem þó eru enn taldir tengjast málinu.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að fjórir menn væru í gæsluvarðhaldi grunaðir um smyglið. Þá var búið að sleppa einum manni í málinu en upphaflega voru fimm handteknir.

Tveir mannanna starfa hjá lífeindafyrirtæki í Reykjavík, sá þriðji er fasteignasali, sá fjórði selur fæðubótarefni og sá fimmti vinnur hjá póstinnflutningsfyrirtæki sem talið er að hafi verið notað til að flytja efnin inn.

Sölumaður fæðubótarefnanna og starfsmaður póstinnflutningsfyrirtækisins eru enn í haldi lögreglu. Gæsluvarðhald yfir þeim var framlengt og gildir fram á Þorláksmessu. Mennirnir eru báðir fæddir árið 1993.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafði rannsókn á innflutningi efnanna staðið yfir í þó nokkurn tíma. Er sendingin barst til landsins skipti lögregla efnunum út fyrir gerviefni og kom fyrir upptökutæki til að fylgjast með og ná öllum málsaðilum.

Rannsókn lögreglu á málinu miðar ágætlega en hún er umfangsmikil og er meðal annars unnin í samstarfi við lögregluyfirvöld í Hollandi.

Holland hefur komið mikið við sögu í innflutningi fíkniefna undanfarin ár. Hald var lagt á mjög stóra sendingu í Norrænu í september í fyrra en þá voru handteknir tveir Íslendingar og tveir Hollendingar. Málið vakti mikla athygli vegna greindarskerðingar annars Hollendingsins í málinu sem var á hálfgerðum vergangi í Reykjavík um síðustu jól enda í farbanni.

Þá vakti athygli mál hollenskra mæðgna sem komu hingað til lands með mikið magn fíkniefna. Móðirin í því máli veitti lögreglu ítarlegar upplýsingar um skipuleggjendur smyglsins en hlaut eftir sem áður þyngsta dóm sem fallið hefur í fíkniefnamáli hér á landi. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Margra vikna rannsókn leiddi til handtöku fimm manna

Gæsluvarðhald fjögurra manna sem grunaðir eru um smygl á amfetamíni og sterum rennur út í dag. Mennirnir eru á þrítugs- og fertugsaldri. Tveir þeirra hafa stundað vaxtarrækt. Húsleit var gerð á vinnustöðum mannanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×