Innlent

Reykjanesbær semur við kröfuhafa

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vandræðum í fjárhagsstjórn Reykjanesbæjar virðast senn á enda.
Vandræðum í fjárhagsstjórn Reykjanesbæjar virðast senn á enda. Vísir/GVA
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa nú lokið við að semja við kröfuhafa sína. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitarfélaginu eftir bæjarstjórnarfund nú í kvöld. 

Markmið viðræðna var að endurskipuleggja efnahagsreikning samstæðu A og B hluta sveitafélagsins og skiluðu þær þeim árangri að skilmálar samkomulags liggja fyrir við lánveitendur Eignarhaldsfélagsins Fasteignar, sem nú er alfarið í eigu Reykjanesbæjar. Viðræðum við kröfuhafa Reykjaneshafnar er þó ólokið.

Í skilmálum samkomulags við kröfuhafa Fasteignar gerir ráð fyrir skuldbreytingum, skilmálabreytingum og sölu eigna. Ekki er gert ráð fyrir afskriftum eða niðurfellingu skulda. Með samkomulaginu er greint á milli eigna sem nýttar eru til lögbundinnar grunnþjónustu sveitarfélagsins og annarra eigna, en dregið er verulega úr leiguskuldbindingum sveitarfélagsins vegna þeirra eigna.

Einnig er sveitarfélaginu gert kleift að huga að uppbyggingu nauðsynlegra innviða s.s. nýs grunnskóla í Dalshverfi og fjölgun leikskólaplássa. Ætlunin sé samhliða þessu að færa Fasteignir Reykjanesbæjar yfir í húsnæðissjálfseignarstofnun eins og heimild er fyrir í nýjum lögum um almennar íbúðir.

Að sögn bæjarstjórnar munu þessar aðgerðir létta talsvert á skuldabyrði sveitarfélagsins og gera því kleyft að rétta úr kútnum.

Áður hafði sveitarfélagið fengið frest til þess að leysa úr skuldavanda sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×