Innlent

Kjörsókn minni á meðal yngri kjósenda en eykst þó á milli kosninga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kjörsókn var mest hjá fólki á aldrinum 65 til 69 ára í þingkosningunum í október.
Kjörsókn var mest hjá fólki á aldrinum 65 til 69 ára í þingkosningunum í október. Vísir/Valli
Hagstofan hefur birt tölur yfir kjörsókn í alþingiskosningunum í október á vef sínum. Þær sýna að kjörsókn er minni á meðal yngri kjósenda en þeirra eldri en  kjörsókn var að þessu sinni minnst á meðal kjósenda á aldrinum 20 til 24 ára eða 65,7 prósent. Kjörsókn var mest hjá kjósendum á aldrinum 65 til 69 ára eða 90,2 prósent.

Myndin sýnir kjörsókn eftir aldurshópum í seinustu þremur kosningum sem farið hafa fram hér á landi.mynd/hagstofan
Á tölum yfir kjörsókn frá forsetakosningunum í júní á þessu ári og í sveitarstjórnarkosningunum 2014 sést þó að fleiri yngri kjósendur eru að mæta á kjörstað með hverjum kosningum. Þannig mættu fleiri á kjörstað í forsetakosningunum en í sveitarstjórnarkosningunum og fleiri í þingkosningunum en í forsetakosningunum.

Í alþingiskosningunum voru alls 246.542 á kjörskrá eða 74,1% landsmanna. Af þeim greiddu 195.203 atkvæði eða 79,2% kjósenda. Kosningaþátttaka kvenna var 79,5% en karla 78,8%. Við kosningarnar greiddu 31.558 manns atkvæði utan kjörfundar eða 16,2% kjósenda en sambærilegt hlutfall var 16,6% í alþingiskosningunum 2013.

Nánari upplýsingar um alþingiskosningarnar má nálgast hér á vef Hagstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×