Viðskipti innlent

Ferðamannagjaldeyrir fer í 100 milljónir eftir komandi áramót

Hafliði Helgason skrifar
Íslendingar geta eftir áramótin höndlað með allt að 100 milljónir króna í erlendum gjaldeyri, án þess að sækja um leyfi til Seðlabankans.
Íslendingar geta eftir áramótin höndlað með allt að 100 milljónir króna í erlendum gjaldeyri, án þess að sækja um leyfi til Seðlabankans.
Annað skref í afnámi gjaldeyrishafta tekur gildi um áramót. Í fyrsta skrefi afnáms gjaldeyrishafta sem tók gildi við samþykkt nýrra laga fengust heimildir til að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir allt að 30 milljónir króna. Nú um áramótin verður þessi heimild aukin í 100 milljónir króna. Gildir þetta jafnt um heimild til að millifæra á eigin gjaldeyrisreikninga hjá innlendum og erlendum bönkum.

Aðrar breytingar um áramót eru þær að ekki þarf að framvísa farseðli vegna ferðagjaldeyris. Þá falla niður skilyrði um innlenda vörslu erlendra verðbréfafjárfestinga. Að margra mati hafa skapast skilyrði til að stíga þau skref að losa að mestu leyti um öll gjaldeyrishöft, en ekkert liggur enn fyrir í þeim efnum.

Í greinargerð Seðlabankans um losun fjármagnshafta kemur fram að mikilvægt sé að losun fjármagnshafta sé skipulögð þannig að komið verði í veg fyrir óhóflegt álag á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja og greiðslujöfnuð. „Fjárhæðarmörk á innstæðuflutninga og erlendar fjárfestingar þurfa því að taka mið af líklegu álagi á greiðslujöfnuð og greiningu á mögulegum áhrifum á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja. Innstæðuflutningur felur í sér að innlend fjármálafyrirtæki tapa fjármögnun og þurfa því að ganga á lausar eignir eða verða sér úti um aðra fjármögnun. Því er ráðlegt að hækka fjárhæðarmörkin í skrefum,“ segir í greinargerð Seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×