Innlent

Tíu mánaða fangelsisdómur yfir síbrotamanni staðfestur

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Eggert á nokkurn sakaferil að baki.
Eggert á nokkurn sakaferil að baki. Vísir/GVA
Hæstiréttur staðfesti í dag tíu mánaða fangelsisdóm yfir Eggerti Kára Kristjánssyni sem sakfelldur var fyrir meiriháttar líkamsárás og fleiri brot í fyrra. Honum var gert að greiða alls 600 þúsund krónur í miskabætur og allan áfrýjunarkostnað.

Eggerti var gefið að sök að hafa á heimili sínu í september í fyrra kýlt annan mann í andlitið með þeim afleiðingum að maðurinn höfuðkúpu- og andlitsbeinsbrotnaði. Hann neitaði sök en sagðist hafa „kreppt fjóra fingur inn í lófann“ og þannig slegið manninn einu sinni en ekki kýlt hann. Við höggið hafi maðurinn fallið í vegg með bakið en staðið upp og þá hefðu þeir farið að ræða málin en þá hafi komið í ljós að maðurinn hefði orðið fyrir árás skömmu áður. Áverkar hans væru því eftir einhvern annan.

Maðurinn sem fyrir árásinni varð sagðist ekki muna vel eftir henni. Hann sagðist hafa rotast við höggið og því ekki vita hvort það hefði verið þungt. Viðurkenndi hann jafnframt að hafa verið undir áhrifum fíkniefna þetta kvöld.

Eggert á nokkurn sakaferil að baki og var tekin hliðsjón af því við ákvörðun refsingar hans. Hann hefur meðal annars verið dæmdur fyrir nauðgun, frelsissviptingu og rán, líkamsárás og önnur minni brot.

Auk þess að hafa verið dæmdur í tíu mánaða fangelsi var Eggert sviptur ökuréttindum ævilangt og gerð voru upptæk fíkniefni sem fundust í fórum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×