Viðskipti innlent

Skáka þúsundum fyrirtækja í Evrópu

Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical
Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical
Hátæknifyrirtækið Nox Medical hefur tryggt sér háan styrk úr Hor­izon 2020 áætlun Evrópusambandsins í samkeppni við þúsundir lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Evrópu. Rökstuðningur styrkveitingarinnar til Nox Medical byggir á því að fyrirtækið muni á næstu árum hanna og þróa byltingarkenndar lausnir á sviði svefnrannsókna. Styrkurinn nemur tveimur milljónum evra eða um 240 milljónum íslenskra króna að núvirði.

Skáka þúsundum fyrirtækja

Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, segir að þau fyrirtæki sem koma til greina til þessarar styrkveitingar hafi færri en 250 starfsmenn og 50 milljónir evra eða minna í veltu. Undir þessi skilyrði falli nær öll fyrirtæki Evrópu önnur en alþjóðleg stórfyrirtæki og starfsemi þeirra sem til greina koma er því afar víðtæk.

„Þau fyrirtæki sem valin eru eiga það sammerkt að vinna að byltingarkenndri tækni á sínu sviði, sem getur breytt því landslagi sem fyrir er. Til að fá styrkinn vegur það hæst í mati á styrkveitingunni að líklegt sé að hann skili árangri og því þýðir þetta að okkar fyrirtæki sker sig úr í hópi þess gríðarlega fjölda fyrirtækja sem þarna sækir um,“ segir Pétur.

„Vandamál sem tengjast svefnröskunum eru algengari en margur heldur. Það eru skilgreindir nærri 100 sjúkdómar, eða sjúkdómsgreiningar, hjá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO) sem tengjast svefn­truflun,“ segir Pétur. Sýnt hefur verið fram á sterk tengsl svefnraskana við m.a. sykursýki, offitu, háþrýsting, hjartabilun, kransæðasjúkdóma og mörg önnur stærstu heilbrigðisvandamál mannkyns í dag. Þá eru ótalin vinnu- og umferðar­slys þar sem þreyta leikur stærra hlutverk en almennt er viður­kennt.

Pétur segir að svefnraskanir séu í raun lýðheilsuvandamál, en afleiðingar svefnraskana eru taldar kosta Evrópuþjóðir um 300 milljarða evra árlega og fer kostnaðurinn hratt hækkandi. Margir segja það hins vegar stórkostlega vanmetna tölu, segir Pétur, einfaldlega vegna þess að margir sem eiga við svefntruflanir að stríða gera sér ekki grein fyrir því í hverju vandi þeirra liggur. Af þeirri ástæðu er því einnig gríðarlega mikilvægt að heilbrigðiskerfin hafi tól og tæki til þess að greina og meðhöndla svefnsjúkdóma á skilvirkan hátt.

Verkefnið sem styrkurinn var veittur út á gengur út á að þróa byltingarkenndar aðferðir og tækni sem gerir mælingar á svefni og svefnstöðugleika einfaldari og þar með aðgengilegri en áður hefur þekkst. Þar sem svefnraskanir eru mjög algengar þá er mikilvægt að aðgengi og kostnaður slíkra mælinga sé ásættanlegur fyrir heilbrigðiskerfi nútímans. Núverandi aðferðir eru kostnaðarsamar og henta jafnvel illa fyrir stóra þjóðfélagshópa svo sem börn sem þurfa þá undantekningalaust að undirgangast hefðbundna svefnmælingu með innlögn á sjúkrastofnun. Hugmyndir Nox Medical ganga út á að leysa þetta kerfisvandamál með nýrri tækni í gervigreind, merkjafræði og úrvinnslu gagna.

Ekki eyland

Nox Medical er ekki eyland í þessum rannsóknum sínum. Fyrirtækið starfrækir sérstakt rannsóknarteymi til þess að vinna að framþróun svefnmælitækninnar í nánu samstarfi við vísindamenn. Þannig má brúa bilið á milli nýjustu þekkingar á heilbrigðissviðinu yfir í vöruþróun. Nox hefur um árabil starfað náið með svefnrannsóknardeild Landspítala – Háskólasjúkrahúss að metnaðarfullum verkefnum. Í þessu verkefni er Nox einnig í samstarfi við margar af virtustu rannsóknamiðstöðvum á þessu sviði s.s. Harvard-háskóla í Boston, Stanford-háskóla í Kaliforníu og Imperial College í London. Fyrirtækið hefur notið styrkja frá Rannís frá upphafi og hefur Rannís ásamt Nýsköpunarmiðstöð Íslands veitt rannsóknarteyminu mikilvæga aðstoð og ráðgjöf í umsóknarferlinu til Evrópusambandsins.

Nox Medical ehf. er stofnað 2006 af verkfræðingum og heilbrigðisvísindafólki sem áður unnu hjá fyrirtækinu Flaga Medcare sem þá var verið að flytja úr landi. Stofnendur einsettu sér að þróa nýja kynslóð svefngreiningarlausna sem hentuðu meðal annars við rannsóknir og meðhöndlun svefntruflana bæði barna og fullorðinna. Vöxtur Nox Medical hefur verið mikill á undanförnum árum; nú starfa um 50 manns hjá fyrirtækinu. Pétur segir það gleðilegt að stækkun fyrirtækisins á stuttum tíma – eða rúmlega 40 stöðugildi – sé hámenntað fólk sem margt er að koma heim til Íslands að loknu háskólanámi til að vinna hjá Nox Medical.

Tíföld velta

Uppgangur Nox Medical hefur verið hraður og hefur velta félagsins tífaldast á síðustu fimm árum og var um 1,5 milljarðar króna árið 2015. Í dag er Nox Medical í fararbroddi þeirra fyrirtækja sem hanna og framleiða lausnir til greiningar á svefntruflunum og meira en ein milljón manna um allan heim fær greiningu á svefnvanda sínum, þar sem lækningatæki Nox Medical eru notuð, segir Pétur og bætir við að stærsti keppinautur Nox Medical sé Philips – alþjóðlegur risi með nær ótakmarkaða möguleika til að fjármagna sínar rannsóknir og þróunarstarf.

„Það er mikið af hæfileikaríku fólki sem hefur leitað út fyrir landsteinana til að afla sér menntunar en finnur ekki tækifæri við hæfi hérna heima. Í því ljósi eru fyrirtæki eins og okkar kærkomin viðbót við flóru atvinnutækifæra hér á Íslandi,“ segir Pétur.

Starfsmenn Nox Medical eru um 50 – margir komu heim eftir nám til að vinna hjá fyrirtækinu. Fréttablaðið/Anton





Fleiri fréttir

Sjá meira


×