Erlent

Svíþjóð: Fær lífstíðardóm fyrir íkveikju og morð

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn, Zoran Radovanovic, var handtekinn tæpum tveimur vikum eftir að hjón á áttræðisaldri fórust í bruna í Norrahammar þann 28. maí síðastliðinn.
Maðurinn, Zoran Radovanovic, var handtekinn tæpum tveimur vikum eftir að hjón á áttræðisaldri fórust í bruna í Norrahammar þann 28. maí síðastliðinn. Vísir/Getty
Dómstóll í Svíþjóð dæmdi í dag 52 ára mann í lífstíðarfangelsi fyrir að orðið fjórum að bana með því að beita fólkinu ofbeldi og kveikja í heimilum þeirra. Um tvær árásir er að ræða.

Maðurinn, Zoran Radovanovic, var handtekinn tæpum tveimur vikum eftir að hjón á áttræðisaldri fórust í bruna í Norrahammar þann 28. maí síðastliðinn.

Lögregla komst fljótlega á snoðir um að um íkveikju hafi verið að ræða, þar sem flöskur af kveikivökva fundust á vettvangi. Hægt var að tengja flöskurnar til verslunar í Jönköping og mátti á upptökum úr öryggismyndavélum sjá Radovanovic kaupa þær skömmu fyrir íkveikjuna.

Radovanovic var svo handtekinn þann 8. júní, en hann starfaði við eignastýringu og hafði átt í viðskiptum við fólkið. Hann játaði að hafa banað fólkinu í Norrahammar.

Í frétt Aftonbladet segir að lögregla hafi skömmu síðar fundið tengingu við aðra sambærilega íkveikju í Hökensås í tveimur mánuðum fyrr, þar sem eldri hjón höfðu einnig látið lífið. Þau höfðu sömuleiðis átt í viðskiptum við Radovanovic, en hann neitaði þó að hafa banað þeim hjónum.

Radovanovic var birt ákæra þann 11. nóvember þar sem hann var sakaður um að hafa beitt tvö fórnarlamba sinna ofbeldi með hafnaboltakylfu og hinum með kúbeini. Að því loknu átti hann að hafa kveikt í heimilum fólksins.

Maðurinn var jafnframt dæmdur fyrir að hafa féflett alls um 5,7 milljónum sænskra króna, um 87 milljónir króna, frá sautján viðskiptavinum sínum. Segir í dómnum að hann hafi lifað um efni fram sem hafi síðar leitt til þess að hann banaði þessum fjóru viðskiptavinum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×