Skoðun

Rangfærsla Samáls

Ragnheiður Þorgrímsdóttir skrifar
Í innsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu 15. janúar fer Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda, mikinn í að réttlæta auglýsingar (jólakveðjur) Norðuráls, en þessar auglýsingar hefur Landvernd kært á grundvelli laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, á þeim forsendum að um sé að ræða villandi, ófullnægjandi eða beinlínis rangar upplýsingar.

Eitt af því sem Pétur sér ástæðu til að nefna málstað sínum til framdráttar eru rannsóknir opinberra stofnana á veikindum hrossa á bænum Kúludalsá í Hvalfirði. Pétur segir orðrétt: „... hafa þau verið rannsökuð af opinberum stofnunum og engin tengsl við flúormengun fundist. Þessar rannsóknir hafa staðið í mörg ár og má fræðast um niðurstöðurnar á heimasíðu Matvælastofnunar.“

Hér talar Pétur eins og veikindi hrossa á Kúludalsá séu margrannsökuð og yfir langan tíma. Niðurstaðan sem þarna er vísað til og birt er á vef Matvælastofnunar er vegna einnar „rannsóknar“ sem hefur, frá því hún var kynnt, verið harðlega gagnrýnd m.a. vegna óvísindalegra vinnubragða og hlutdrægni. Um rannsóknina má m.a. lesa á vefnum www.namshestar.is.

Alrangt er að hún hafi staðið um margra ára skeið, eins og berlega sést ef gögn eru skoðuð. Ekki hafa verið birtar niðurstöður úr rannsóknum annarra opinberra aðila. Aftur á móti hefur eigandi hrossanna á Kúludalsá ítrekað farið þess á leit m.a. við Umhverfisstofnun (eftirlitsaðila Norðuráls) að hlutast verði til um grunnrannsóknir á þolmörkum íslenskra grasbíta gagnvart flúori, en án árangurs.

Annaðhvort fer framkvæmdastjóri Samáls hér vísvitandi með rangfærslur til að afvegaleiða lesendur eða þá að hann veit ekki betur, sem þýðir að hann hefur ekki haft fyrir því að kynna sér málið áður en hann setti fullyrðingar sínar á blað. Deila má um hvort er verra – en ljóst má vera að taka þarf öllu með fyrirvara sem frá álframleiðslunni kemur, jólakveðjum sem öðru.


Tengdar fréttir

Af jólakveðjum í útvarpinu

Norðurál óskaði landsmönnum gleðilegra jóla á öldum ljósvakans yfir hátíðarnar og voru þær auglýsingar gagnrýndar af Snorra Baldurssyni, formanni Landverndar, í Fréttablaðinu. Hér verður leitast við að svara þeirri gagnrýni í stuttu máli.

Ósvífin auglýsingaherferð Norðuráls

Barátta íslensku stóriðjufyrirtækjanna og samtaka þeirra fyrir lægra orkuverði hefur vakið athygli. Í því sambandi má minnast orða Harðar Árnasonar, forstjóra Landsvirkjunar, rétt fyrir jólin um að Norðurál beiti kjaradeilunni í Straumsvík fyrir sig í samningaviðræðum um




Skoðun

Sjá meira


×